„Átakanlega sorglegt“
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, segir „átakanlega sorglegt“ hversu lítið það sé í raun sem tefji fyrir þeim verkefnum sem séu í pípunum á Suðurnesjum. Ragnheiður vakti máls á þessu á Alþingi fyrir helgi í umræðu utan dagskrár um atvinnumál á Suðurnesjum.
Ragnheiður sagði fund Samtaka atvinnurekenda á Suðurnesjum í Stapanum á dögunum hafa leitt í ljós að í mörgum tilfellum væri það mjög lítið sem tefði fyrir þessum verkefnum. „Varðandi kísilver er það útgáfa reglugerðar sem ég átti orðastað við hæstv. iðnaðarráðherra um fyrr í vikunni sem hún gaf fyrirheit um að væri að ganga til baka. Í tilfelli gagnavers vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um vandamál í sambandi við virðisaukaskatt á búnað til reksturs gagnavera, hvar er það mál statt? Það hefur verið stopp í fjármálaráðuneytinu í 18 mánuði og fyrir rúmum mánuði ræddum við það og ákveðin fyrirheit voru gefin um að það væri að leysast. Hvar er það mál statt,“ spurði Ragnheiður.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, svaraði því til að ráðuneytið hefði þegar gefið út hvað yfirvöld væru tilbúin að reyna að gera með gagnaversfyrirtækjunum eða samtökum þeirra. „Við erum í góðu samstarfi við þau um að útfæra þær leiðir og það verður reynt að finna leiðir til að endurgreiða virðisaukaskatt af þeim búnaði sem fluttur er til landsins þótt viðkomandi aðili skrái ekki starfsemi og er það umtalsvert frávik frá almennum skattareglum. Einnig erum við að endurskoða uppgjör á virðisaukaskatti vegna sölu á rafrænni þjónustu. Ég geri ráð fyrir því að frumvarp komi fljótlega inn til að klára þann þátt málsins. Þar eiga að vísu fleiri hagsmuna að gæta en bara gagnaver. Það er vandamál sem skatturinn hefur verið að takast á við, hvernig eigi að skilgreina rafræna þjónustu og hvernig eigi að meðhöndla hana í skattalegu tilliti. Það snýr að tölvuleikjafyrirtækjum, hugbúnaðarfyrirtækjum og gagnaverum og meiningin er að reyna að botna það mál og hin með frumvarpi nú á næstu dögum,“ svaraði Steingrímur.
Ragnheiður vék máli sínu einnig að boðuðum skatti í fjárlagafrumvarpinu á áfengi og tóbak í fríhafnarverslun.
„Hefur hæstv. fjármálaráðherra gert sér grein fyrir því að með því að leggja slík vörugjöld á er ekki verið að færa verslun á áfengi og tóbaki til ÁTVR í Kringlunni heldur til Kaupmannahafnar, London og annarra flugvalla? Og þar sem helmingur veltu Fríhafnarinnar kemur frá komuversluninni gæti þetta haft í för með sér að 50 manns á Suðurnesjum missi vinnuna til viðbótar við allt hitt. Hafði hæstv. fjármálaráðherra gert sér grein fyrir þessu þegar tillögurnar voru lagðar fram,“ spurði Ragnheiðar.
„Varðandi fríhafnarmálin sem hér eru nefnd þá verður stigið þar varlega til jarðar og að sjálfsögðu erum við ekki svo skyni skroppin í fjármálaráðuneytinu að við áttum okkur ekki á því að ef þar væri farið of hart fram hefði það áhrif á afkomu og rekstur,“ svaraði Steingrímur og hélt áfram: „Fjármálaráðuneytið, sem jafnframt fer með hlutabréfið í Isavia, hefur engan áhuga á því að kippa stoðunum undan þeim rekstri, að sjálfsögðu ekki. Hitt er allt annað mál að það er ekki heilagt að það sé 100% afsláttur á vörugjöldum í Fríhöfn og þegar verð á áfengi og tóbaki hefur verið hækkað aftur innan lands hefði átt að myndast þar meiri munur en áður var. Fríhöfnin keppir annars vegar við sölu innan lands og hins vegar við verð í fríhöfnum annars staðar. Við sem erum í fjármálaráðuneytinu áttum okkur alveg á þessu, m.a. sá sem hér talar sem er gamall samgönguráðherra.“
Álver í Helguvík bar einnig á góma í þessari umræðu og þar sagði Steingrímur m.a. þetta:
„Varðandi Helguvík verða menn bara að horfast í augu við það að stjórnvöld geta ekki þvingað fram niðurstöðu í samningum orkufyrirtækja við væntanlegan kaupanda um orkuverð. Ef veikleikar eru í sjálfum orkuöflunarforsendunum þá er það ekki eitthvað sem stjórnvöld hafa í sínum höndum. Það er bara ekki þannig. Það þýðir ekki að vera í þessu gamla karpi eða þessum umkenningaleik. Ég held að það sé langmikilvægast fyrir okkur að hætta því öllu saman og að stjórnvöld, ríkisvald, sveitarfélög og heimamenn fari að vinna saman og skoða hvað þau geta sameiginlega gert til að takast á við þetta erfiða ástand. Það er algerlega rétt að Suðurnesin eiga að vera okkar mesta áhyggjuefni í þeim efnum.“