Átak í umferðarmálum Reykjanesbæjar
Á vegum umferðar- og tæknisviðs Reykjanesbæjar hefur í sumar verið lögð sérstök áhersla á að bæta öryggi barna og gangandi vegfarenda þar sem sérstaklega hefur verið hugað að gerð hraðahindrana í íbúðarhverfum. Að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar forstöðumanns umferðar- og tækniráðs hafa verið lagðar 37 hraðahindranir í íbúðarhverfi í Reykjanesbæ, 3 í Höfnum, 12 í Ytri-Njarðvík, 3 í Innri-Njarðvík og 19 í Keflavík.Viðar Már segir að við ákvörðun um byggingu hraðahindrananna hafi verið byggt á óskum og ábendingum íbúa, ásamt því sem umferðaröryggisáætlun hafi verið til hliðsjónar. Í tengslum við átakið hafa verið lagðir 4,1 kílómetrar af nýjum og endurgerðum gangstéttum og lagfærðar misfellur í gangstígum sem gátu skapað slysahættu. Á blaðamannafundi sem haldinn var til að kynna átakið kom fram í máli Árna Sigfússonar bæjarstjóra að settur hafi verið á laggirnar sérstakur sími þar sem íbúar geti hringt inn og bent á hættur í umhverfinu, sérstaklega gagnvart börnum, sem þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar hugar síðan að: “Það er mjög mikilvægt að fá áfram ábendingar frá foreldrum og íbúum um hættur í umhverfinu og skapa þannig sem öruggast umhverfi fyrir börn og gangandi vegfarendur." Árni segir að sérstaklega hafi verið hugað að öryggismálum í kringum skólana í Reykjanesbæ og má þar nefna hraðahindranir í kringum Heiðaskóla, Myllubakkaskóla og Holtaskóla: “Markmiðið er náttúrulega að draga úr hraða í íbúðarhverfunum og við skólana og draga þannig úr líkum á slysum. En þetta er einungis eitt skref í öryggismálunum og við munum áfram vinna að þessum málum," sagði Árni m.a. Símanúmerið þar sem hægt er að hringja og koma með ábendingar varðandi hættur í umhverfinu er: 421-6780.