Átak í læsi vekur athygli á landsvísu
Ákveðið var að ráðast í læsisátak í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis árið 2011 og hefur það nú skilað sér í betri árangri nemenda. Kennarar leik- og grunnskóla alls staðar að af landinu koma reglulega til Reykjanesbæjar að kynna sér framkvæmd læsisátaksins og önnur þróunarverkefni. „Síðustu ár hafa verið mjög gefandi tími í skólum Reykjanesbæjar því fulltrúar svo margra skóla annars staðar að af landinu hafa komið til að kynna sér starfið. Það eflir okkur sem störfum í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar og það er mjög gaman að aðrir sýni starfi okkar áhuga,“ segir Kristín Helgadóttir, nýráðinn leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar og fráfarandi leikskólastjóri í leikskólanum Holti í Innri-Njarðvík.
Allir stjórnendur leik- og grunnskóla Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu árið 2011 um að vinna skipulega að bættri læsiskunnáttu nemenda. Niðurstöður samræmdra prófa og Pisa kannana víða um land, þar á meðal á Suðurnesjum, þóttu heldur lakar og var ákveðið að bregðast við því. „Nú vinna leikskólarnir með læsi frá byrjun leikskólagöngu við tveggja ára aldur. Það hefur nú alltaf verið þannig en eftir undirritunina vinnum með með læsi á markvissari hátt. Bókstafir eru sýnilegir fyrir nemendur frá tveggja ára aldri. Ekki þannig að þau læri strax að lesa heldur að þau upplifi stafina og ritmálið frá upphafi skólagöngunnar.“ Kristín segir marga kennara grunnskóla hafa haft orð á því að eftir læsisátakið komi nemendur betur undirbúnir úr leikskóla í grunnskóla. „Það skiptir svo miklu að allir skólarnir voru þátttakendur stefnumótuninni. Við viljum sjá heild í námi barna og að samfella í námi á milli leikskóla og grunnskóla verði góð. Við í leikskólanum viljum standa vörð um leikinn og að læsiskennsla sé ekki í formi formlegrar kennslu. Það er svo mikilvægt að leikskólabörnin fái að leika sér. Ég hef þá trú að fólk læri miklu betur ef það er gaman.“
Í Reykjanesbæ eru starfandi tíu leikskólar og segir Kristín þá flesta ólíka en að þeir starfi vel saman. „Við vinnum með margar stefnur. Á Holti er unnið með Reggio Emilio stefnuna og Hjallatún starfar eftir stefnu Howard Gardner svo dæmi séu tekin. Svo eru hérna þrír Hjallastefnuleikskólar og þrír heilsuleikskólar. Það er virkilega gaman að starfa í umhverfi eins og hjá leikskólum Reykjanesbæjar þar sem gagnkvæm virðing ríkir þrátt fyrir mismunandi stefnur og strauma. Við getum sest niður og rökrætt og skipst á skoðunum þó að við séum með ólíkar leiðir að sama markmiði.“ Ýmis þróunarverkefni, önnur en læsisátakið, hafa vakið athygli út fyrir bæjarmörkin. Þar á meðal er starf Tjarnarsels tengt vettvangsferðum og uppbyggingu á útisvæði. Þá fengu Akurskóli og leikskólarnir Holt og Akur styrk til uppbyggingar á Narfakotsseylu, útinámssvæði í Innri-Njarðvík og hafa margir hópar komið til Reykjanesbæjar að kynna sér útinámið.
Kristín segir grunninn að árangri í starfinu vera hversu góðir kennarar séu í leikskólum Reykjanesbæjar. „Við höfum gott starfsfólk og faglega stjórnendur sem hafa starfað þar lengi og þekkja vel til. Í hverjum og einum skóla er mikil þekking til staðar. Í skólunum er unnið mikið þróunarstarf sem starfsfólkið er tilbúið að taka þátt í. Slík þróun gefur svo mikið til barnanna, foreldranna og kennaranna. Það er svo gaman að vinna í umhverfi þar sem er mikil gróska og starfið fær að þróast áfram.“
Sjálfstraustið er það mikilvægasta
„Við í leikskólanum höfum frelsi til að vinna með læsi á okkar hátt og við þekkjum vel til þroska barnanna,“ segir Elín Björk Einarsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Holti. Hún segir mikilvægt að þegar verið er að vinna með læsi að gleyma ekki leiknum. „Það er okkar hlutverk að halda utan um leikinn og varðveita hann innan leikskólans. Það er nægur tími til að fara út í hefðbundnari kennsluaðferðir síðar. Þegar skrifað var undir samstarfsyfirlýsingu um læsiskennslu árið 2011 lögðum við í leikskólunum mikla áherslu á að þar væri fjallað um læsi í víðum skilningi, ekki aðeins að setja stafi í orð, heldur líka læsi á umhverfið og tilfinningar svo dæmi séu tekin.“
Elín segir nemendur standa misjafnlega þegar í grunnskóla kemur og því sé mikilvægt að þeim sé mætt á þeim stað sem þau eru. „Sum börn eru komin með tök á lestri en önnur ekki komin á þann stað í þroska. Sum börn eru alveg tilbúin til að læra að lesa fimm ára á meðan önnur verða það við sjö ára aldurinn. Þetta jafnast svo yfirleitt út í 2. til 3. bekk grunnskóla. Þó að börn séu orðin stautandi hafa þau ekkert endilega betra forskot á önnur börn sem eru búin að vinna vel með orðaforða og styrkja sjálfsmyndina. Sjálfsmyndin er svo mikill grunnur; það að hafa trú á sjálfan sig og sína getu er besta veganestið sem við í leikskólanáminu getum gefið barni.“