Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ásýnd stóriðjunnar í Helguvík
Föstudagur 14. október 2016 kl. 09:23

Ásýnd stóriðjunnar í Helguvík

- Til skoðunar að hylja hluta kísilvers með gróðri

Kísilver United Silicon í Helguvík reis á árinu og var kveikt upp í fyrsta ofni þess í vikunni. Hæsti punktur bygginganna sem tilheyra kísilverinu er 38 metra hár og eru þær sjáanlegar víða að. Þær byggingar United Silicon sem þegar hafa verið reistar eru aðeins byrjunin á uppbyggingu stóriðju í Helguvík.

Þegar byggingu á verksmiðju United Silicon verður lokið verða þar fjórir brennsluofnar og bygging utan um hvern þeirra. Búið er að taka einn ofn í notkun núna í fyrsta áfanga. Gangi áætlanir eftir verður þremur ofnum bætt við á næsta áratug með tilheyrandi byggingum og verður verksmiðjan þá sú stærsta sinnar tegundar í heimi. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á myndinni má sjá byggingar sem tilheyra kísilveri United Silicon. Lágreista hvíta húsið lengst til vinstri er fiskibræðsla og tilheyrir ekki kísilverinu. Í bakgrunni má sjá íbúabyggðina í Reykjanesbæ. Lóð Thorsil er hér næst á myndinni. Áætlað er að þar rísi fyrri áfangi kísilvers árið 2018. Mynd/elg

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjanesbæ, þá eru uppi hugmyndir um að reyna að draga úr ásýnd bygginganna eins og hægt er, til dæmis með gróðri. Þær hugmyndir velta hins vegar á fjármagni. Nú er unnið að gerð fjárhagsáætlunar hjá bæjarfélaginu og ekki ljóst hve mikið af áætlunum um gróður á iðnaðarsvæðinu komast í framkvæmd á næsta ári. Gert er ráð fyrir jarðvegsmönum og gróðurbeltum til lengri tíma en það mun þó ekki koma í veg fyrir að verksmiðjurnar sjáist.

 

45 metra hátt kísilver árið 2018
Á teikniborðinu er einnig kísilver í eigu Thorsil sem áætlað er að rísi í Helguvík árið 2018. Það verður staðsett á lóð við hliðina á kísilveri United Silicon, nær sveitarfélaginu Garði. Nú er unnið að fjármögnun á framkvæmdinni og samkvæmt fréttum á dögunum er ráðgert að henni ljúki síðar í þessum mánuði. Í maí síðastliðnum var undirritaður samningur við Landsvirkjun um rafmagn til kísilversins.

Kísilver Thorsil mun rísa á 15 hektara lóð. Í matsskýrslu Mannvits síðan í febrúar 2015 kemur fram að hæð bygginganna verði allt að 45 metrar og skorsteinar allt að 53 metrar. Til samanburðar má geta að Hallgrímskirkjuturn er 74,5 metrar. Í matsskýrslu Mannvits segir einnig að byggingarnar verði mest áberandi frá nyrðri hluta byggðar í Reykjanesbæ, það er frá götunum Heiðarbakka, Heiðarenda og Heiðarbergi en það er næsta byggð við kísilverið og er í um 1,6 kílómetra fjarlægð frá lóðarmörkum versins. Þá segir í skýrslunni að áhrif frá Garðskagavegi og þar um kring séu þau talin verulega neikvæð vegna nálægðar. Áhrif frá Vogum eru talin óveruleg vegna fjarlægðar en frá Njarðvík nokkuð neikvæð. Áhrifin eru öll talin bein og varanleg en þó afturkræf í þeim skilningi að hægt er að taka verksmiðjuna niður síðar.

Fyrirhugað er að fyrri áfangi kísilvers Thorsil af tveimur verði tilbúinn árið 2018. Þessi mynd er úr matsskýrslu Mannvits um framkvæmdina og sýnir mögulega ásýnd kísilversins frá Hólmsbergskirkjugarði. Á myndinni eru ekki manir eða annar gróður sem væri hægt að setja þar til að gera byggingarnar minna áberandi.

Það hvað er sjónmengun er huglægt mat, sem lýsir neikvæðum áhrifum mannvirkja á umhverfi sitt. Í lögum um náttúruvernd segir að við hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra mannvirkja skuli þess gætt að þau falli sem best að svipmóti lands.

Í kísilverunum er unninn kísill úr kvarsi. Hann er notaður til framleiðslu á ýmsum vörum, svo sem tannkremi, sjampói, dekkjum, ýmsum kíttiefnum og sólarrafhlöðum.

Kísilver United Silicon séð frá Reykjanesbraut. VF-mynd/hilmarbragi

Ásýndin er dýrmæt á Reykjanesi
„Ásýndin er eitt af því sem við á Reykjanesi eigum mikil tækifæri í. Það er landslagið og við þurfum að vernda það,“ segir Johan D. Jónsson, leiðsögumaður, fyrrum ferðamálafulltrúi Suðurnesja og fyrrum formaður Ferðamálasamtaka Reykjaness. Hann segir Helguvíkina hafa verið huggulegan stað áður fyrr en svo verið breytt í hafnarmannvirki. „Núna er Bergið svolítið að missa tilgang sinn sem útivistarstaður. Þegar fólk er komið upp á það blasa við álver, kísilver og bræðsla,“ segir hann.

Johan D. Jónsson, leiðsögumaður og fyrrum formaður Ferðamálasamtaka Reykjanes og fyrrum ferðamálafulltrúi Reykjanesbæjar. VF-mynd/hilmarbragi

Uppbyggingin í Helguvík hefur átt sér langan aðdraganda. Aðspurður um mögulegan lærdóm af því ferli segir Johan auðvelt að skilja ástæður þess að farið var í að fá stóriðjufyrirtæki til að hefja rekstur í Reykjanesbæ. „Ef við hefðum ekki misst kvótann þá hefðum við aldrei velt þessu fyrir okkur. Þá væri hérna blómstrandi fiskiðnaður, bátaútgerð og skemmtilegheit sem væntanlega allir gætu sætt sig við.“ Hann segir að á sínum tíma hafi mikill asi hlaupið í fólk, verið var að leggja niður mörg hundruð störf á varnarsvæðinu og við blasti atvinnuleysi. „Það var að sjálfsögðu ekki gott en nú, aðeins tíu árum síðar, sem er ekki langur tími í þróun eins sveitarfélags, þá þarf að flytja inn verkafólk í stórum stíl. Fasteignamarkaðurinn er í blóma og flest annað hér þó að fjármál Reykjanesbæjar séu á vinnslustigi. Margt hefur farið til betri vegar síðan fyrir áratug. Það má ekki hlaupa í svona björgunaraðgerðir heldur þarf að horfa á heildina þannig að uppbyggingin verði jöfn og án umhverfis- og ásýndarvandamála.“

Johan segir erfitt að gera sér grein fyrir því hvort ásýndin á Bergið nú hafi áhrif á ferðamennskuna en fjöldi ferðamanna sækir Reykjanesbæ heim dag hvern. „Ímyndin af svæðinu sem slík dettur aðeins niður. Hér erum við með svæði sem heitir Reykjanes Geopark og er á skrá Unesco sem merkir að hér ætli fólk að byggja upp á umhverfisvænan og faglegan hátt. Þá skiptir máli að unnið sé úr afurðum sem fást af svæðinu og að unnið sé með landslaginu og fólkinu sem vill koma og skoða. Þá stingur svona uppbygging stóriðju dálítið í stúf.“


Sér kísilverið varla frá Berginu

Magnús Óskar Ingvarsson býr við Bergveginn á Berginu í næsta nágrenni við kísilverið. Byggingar kísilversins eru þó ekki áberandi þaðan. Aðspurður um ásýnd bygginganna segir hann þær ekki trufla sig. „Frá mínum bæjardyrum séð er bara aldeilis í lagi með þetta. Héðan rétt grillir í toppinn á byggingunni. Ég horfi aldrei þangað og verð ekki neitt var við kísilverið.“ Að hans mati er í lagi að byggja slíkar byggingar nálægt íbúabyggð sé þörf fyrir þær. „Þetta skapar atvinnu og hana vantar alltaf og um að gera að bæta úr því.“

Magnús Óskar Ingvarsson, íbúi á Berginu. VF-mynd/dagnyhulda

Gestir á Soho velta kísilverinu fyrir sér
Á veitingastaðnum Soho við Hrannargötu í Reykjanesbæ er gott útsýni út á sjó, á Bergið og til Helguvíkur. Að sögn Arnar Garðarssonar veitingamanns spyrja gestirnir mikið um verksmiðjubyggingarnar. „Flestir tala um að vilja ekki hafa byggingarnar þarna en sumum finnst þær falla inn í umhverfið. Ég vona að mönin sem er þarna fyrir verði stækkuð og að hún nái að hylja kísilverið.“

[email protected]