Ástarormurinn eyðileggur tölvukerfi á Suðurnesjum
Nýr tölvuormur er nú í hraðri útbreiðslu um allan heim. Ormurinn kom fram fimmtudaginn 4. maí og hefur þann eiginleika að dreifa sér leifturhratt gegnum tölvupóstforritið Outlook. Hér er um að ræða „Visual Basic Script“ orm sem gengur undir nafninu „I-LOVE-YOU“. Fólk er beðið að opna ekki tölvupóst með yfirskriftinni „I LOVE YOU“, heldur eyða honum strax. Vírusinn getur eyðilagt tónlistarskrár og myndaskrár ásamt því að valda ýmsum öðrum óskunda. Ef Microsoft Outlook eða Outlook Express er notað, er hætta á að vírusinn sendi sjálfan sig á alla sem eru í netfangaskrá viðkomandi tölvu. Komin eru fram ný afbrigði af „ástarorminum“ ILOVEYOU, en þau heita Joke, IMISSYOU og „I miss you“.Nánari upplýsingar um vírusinn er hægt að fá á heimasíðu Friðriks Skúlasonar http://www.complex.is. Vírusvarnafyrirtækið Dr. Solomon´s er komið með vörn gegn vírusnum og er hægt að finna upplýsingar um hana á slóðinni http://www.zdnet.co.uk/software/specials/2000/05/iloveyou/. Önnur fyrirtæki verða líklega komin með vörn gegn vírusnum von bráðar. Til að verjast svona vírusum í framtíðinni er mælt með því að opna aldrei forrit sem eru send sem viðhengi í tölvupósti nema vitað sé nákvæmlega hvaða forrit sé um að ræða og hvað það gerir.Tölvukerfi Bláa lónsins var meðal kerfa sem sýktust af vírusnum, en skv. fréttum Stöðvar 2 voru um 80% fyrirtækja á Íslandi sem urðu fyrur barðinum á honum. Björn Ragnarsson, fjármálastjóri Bláa lónsins sagði að vírusinn hefði sloppið inn fyrir vírusvörn kerfisins á fimmtudagsmorgun. „Þetta er nýr vírus og vírusvarnir hafa því ekki enn verið búnar til fyrir hann. Einn starfsmanna okkar og setti vírusinn af stað. Hann er búinn að eyða öllum skrám sem innihalda myndir, svokölluðum jpg-skrám, sem voru á sameiginlegu svæði. Við vonum að tjónið verði ekki mikið en við tökum dalega afritanir af öllum gögnum. Við fáum mann eftir helgina til að líta á kerfið fyrir okkur og hlaða inn gögnum sem hafa tapast“, sagði Björn og bætti við að þetta kenndi fólki væntanlega að vera á varðbergi gagnvart slíkum vírusum í framtíðinni.