„Ástandið er grafalvarlegt“
- Umhverfisráðherra bíður svara frá Umhverfisstofnun
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra skrifar stöðuuppfærslu á Fésbókar síðu sína þar sem hún segir meðal annars að ástandið í Reykjanesbæ sé orðið grafalvarlegt vegna mengandi stóriðjunnar í Helguvík. Í færslunni segir hún einnig að fólk sé svipt frelsi sínu því það loki dyrum, gluggum og þori ekki að senda börn sín út í andrúmsloft sem það finni greinilega sjálft að sé að ógna heilsu þeirra og líðan.
„Ég hef gefið út þau skilaboð bæði út á við og inn á við að ég vilji enga afslætti gefa á mengunarstöðlum, lýðheilsuviðmiðum og aðgerðum í þá veru. Á síðasta sólahring hefur mikið af fólki sett sig í samband við mig út af stöðunni hjá United Silicon og eðlilega krafist svara. Ég fæ að svara hér því ég hef ekki tölu eða utanumhald á þeim póstum sem ég er „tögguð“ í. Á þessum tímapunkti er mér ekki ljóst hver nákvæmlega staðan er hjá fyrirtækinu eða hvað hefur gerst, en ég hef þegar beðið um upplýsingar frá UST þess efnis og bíð svara,“ segir Björt í stöðuuppfærslu sinni.
Hún segir einnig að það sé þó skýrt að ef slökkt hefur á ljósbogaofni United Silicon eða hann farið undir ákveðið hitastig þá hafi Umhverfisstofnun þegar boðað stöðvun á framleiðslu eins og kom fram í bréfi Umhverfisstofnunar til United Silicon í síðustu viku.