Ástandið á Grindavíkurvegi þolir enga bið
- Þrjú banaslys síðan árið 2007 - Funda með vegamálastjóra í dag
Banaslysið á Grindavíkurvegi aðfararnótt síðasta laugardags er annað banaslysið á veginum á þessu ári. Í slysinu hafnaði bíll utan vegar og ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, lést. Þar á undan varð banaslys á veginum 12. janúar síðastliðinn þegar bílar, sem ekið var úr gagnstæðum áttum, lentu saman. Í því slysi lést ökumaður annars bílsins. Alls hafa orðið þrjú banaslys á veginum síðan árið 2007.
Eftir banaslysið í janúar var stofnaður hópur í Grindavík til að þrýsta á um úrbætur á veginum. Hann skipa fulltrúar úr bæjarstjórn, bæjarstjóri, Vilhjálmur Árnason þingmaður og fulltrúar frá Bláa Lóninu, Jóni og Margeiri, HP gámum, Vísi og Þorbirni. Fulltrúar hópsins funda með vegamálastjóra í dag og með samgönguráðherra í næstu viku. Að sögn Kristínar Maríu Birgisdóttur, forseta bæjarstjórnar Grindavíkur, er brýnt að ráðast í úrbætur á veginum sem fyrst. „Vegurinn er ekki eins og við viljum hafa hann. Það hefur liðið langur tími án aðgerða. Allar framkvæmdir taka tíma og því þarf að byrja strax að undirbúa aðgerðir á Grindavíkurvegi því ástandið þolir enga bið,“ segir hún.
Kristín nefnir sem dæmi að brýnt sé að aðskilja akstursstefnur og að ekki dugi til að setja vegrið á svo lélegan veg sem Grindavíkurvegurinn sé. „Það þarf að breikka veginn enda er gríðarleg umferð um hann. Langbest væri auðvitað að tvöfalda veginn en líklega raunhæft að byrja á 2+1. Fjöldi ferðamanna keyrir um veginn og margir þeirra eru að keyra sína fyrstu kílómetra á Íslandi á veginum. Þar er líka mikil hálkumyndun enda liggur vegurinn yfir vatnsverndarsvæði. Sú staðreynd kallar líka á tafarlausar aðgerðir því öll heimili og atvinnulífið á Suðurnesjum treysta á vatn þaðan. Við höfum þær upplýsingar frá sérfræðingi að aðeins 500 lítra olíuslys geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir öll Suðurnesin.“ Þá nefnir Kristín að íbúum í Grindavík hafi fjölgað mikið og muni að öllum líkindum halda áfram að fjölga á næstu árum sem auki umferð um veginn enn frekar.
Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, greindi frá því í viðtali við Víkurfréttir í janúar síðastliðnum líklegt að gufa frá virkjun setjist á veginn, þannig myndist hálka og að það þurfi að rannsaka. Mjög líklega sé vatn undir hrauninu og mikill raki þaðan sem gufi upp. Við þetta aukist líkur á hálkumyndun til muna.
Umferð um Grindavíkurveg hefur aukist mikið undanfarin ár. Árið 2012 keyrðu að meðaltali 2.755 bílar um Grindavíkurveg á dag, framhjá Seltjörn, en árið 2016 var fjöldinn kominn upp í 4.232 og er fjölgunin því 53,6 prósent. „Þegar fjöldi bíla á vegi er orðinn svona mikill þá aukast mjög mikið líkurnar á að fari ökumaður yfir á rangan vegarhelming þá lendi hann á öðrum bíl. Það er því brýnt að aðgreina gagnstæðar aksturstefnur til dæmis með víravegriði en þannig yrði hægt að koma í veg fyrir framanáakstur,“ sagði hann.
EuroRAP er eftirlitskerfi með öryggi vega í Evrópu og eru aðildarfélögin FÍB og systurfélög þess í álfunni. Vegir er skoðaðir á vegum EuroRAP og ástand þeirra metið eftir stöðluðu alþjóðlegu kerfi sem greinir öryggi þeirra.