Ástand fyrirtækja á Suðurnesjum verst allra á landsbyggðinni
Ástand fyrirtækja á Suðurnesjum er slæmt í dag og gæti farið versnandi að öllu óbreyttu. Fjörutíu og þrjú prósent fyrirtækja á landsbyggðinni eru í verulegum fjárhagsvandræðum og fjórtán prósent eru í alvarlegum vanskilum og ógjaldfær. Ástandið er þó verst á Suðurnesjum en hér er rúmlega helmingur fyrirtækja sem sér fram á gjaldþrot að óbreyttu.
Iðnaðarráðherra skipaði starfshóp í nóvember til að fjalla um lánastarfsemi Byggðastofnunar, þar sem eigið fé stofnunarinnar var komið undir lögbundið lágmark. Stjórnendur telja að stofnunin þurfi að leggja fram um einn og hálfan milljarð króna á afskriftarreikning til viðbótar því sem áður hefur verið lagt fyrir.
Samhliða vinnu starfshópsins var fyrirtækið Creditinfo fengið til að vinna úttekt á stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni en úttektin náði til tæplega 10 þúsund fyrirtækja. Samkvæmt þessari úttekt eiga um 43 prósent fyrirtækja við alvarleg fjárhagsvandræði að stríða og munu að óbreyttu lenda í alvarlegum vanskilum innan tólf mánaða. Fjórtán prósent fyrirtækja fá ekki á sig svokallað CIP áhættumar, þar sem þau eru nú þegar metin ógjaldfær eða í vanskilum. Í byggingar- og mannvirkjageiranum er staðan verst en áhættumat þessara fyrirtækja bendir til að fjörtíu prósent þeirra séu með áhættu umfram eðlileg mörk, og nítján prósent fyrirtækjanna séu ógjaldfær.