Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ástand fjölbýlishúss við Tjarnarbraut er í pattstöðu
Miðvikudagur 27. júlí 2011 kl. 12:33

Ástand fjölbýlishúss við Tjarnarbraut er í pattstöðu

Að Tjarnarbraut 14 í Innri-Njarðvík stendur nýlegt 20 íbúða fjölbýlishús sem búið er í að hluta, þrátt fyrir að byggingaframkvæmdum við húsnæðið sé ekki lokið og margt sé ófrágengið sem tryggir hollustu og öryggi þeirra sem nú þegar hafa hafið búsetu í húsnæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkurfréttir greindu frá svipuðu máli í síðustu viku og hafa íbúar í Innri-Njarðvík haft samband við blaðið vegna málsins og bent á margt m.a. ófrágengin svalahandrið, óheft aðgengi að sameignum og tæknirýmum sem getur orsakað slys á börnum og þeim sem í íbúðunum dvelja. Nágrannar hússins segja jafnframt vera á nálum vegna þessarar slysagildru og spurning hver sé ábyrgur ef einhver hrapar fram af svölunum eða annað. Ljóst er að það sé bara tímaspursmál hvenær einhver slasist, en það virðist oftast eitthvað þurfa að koma upp á til að eitthvað sé gert í svona málum. Víkurfréttir leituðu upplýsinga um stöðu mála hjá embætti byggingafulltrúa Reykjanesbæjar.

Sigmundur Eyþórsson starfsmaður byggingafulltrúa sagði að mál af þessu tagi séu flókin og taki tíma en ábyrgðin sé fyrst og fremst eigenda og/eða byggingastjóra, sé um að ræða byggingasvæði eða mannvirki í byggingu. Ferlið hjá byggingafulltrúa sé þannig að fyrst eru send út ábendingabréf, þar sem viðkomandi eru upplýsir um það sem ábótavant er og bent á mögulegar lausnir til úrbóta. Virða þarf andmælarétt og önnur stjórnsýsluleg ákvæði m.a. að reyna að leysa mál að fremsta megni þannig að það valdi sem minnstum skaða og kostnaði. Verið hins vegar ekki lausn í málinu, eins og þetta mál virðist stefna í, þá þarf jafnvel að rýma húsið með lögregluvaldi og málið er í raun komið á það stig.

Byggingaleyfi fyrir fjölbýlishúsunum var útgefið árið 2005, framkvæmdin fór síðan í gjaldþrot árið 2008, en þá hafði verkið stöðvast í nokkurn tíma. Í framhaldi komu nýir aðilar að málinu og unnu vel í því á tímabili en því miður stöðvaðist verkið aftur árið 2009, síðan þá hefur lítið verið aðhafst í þessu fjölbýlishúsi. Ýmsir aðilar fara með eignahald á íbúðunum en íbúðalánasjóður hefur eingast flestar íbúðir undanfarið.

Sigmundur fagnar ábendingum nágranna og umfjöllun Víkurfrétta um þetta mál, sem er nokkuð einstakt. Umfjöllunin sé fyrst og fremst upplýsandi fyrir þá sem eru í þeirri stöðu að leita sér að húsnæði og ekki síður ákveðin upphrópun til foreldra að gæta vel að öryggi og hollustu barna sinna.

Sigmundur bendir á að í heild sinni sé ástandið hér í Reykjanesbæ ekki slæmt til samanburðar við önnur sveitafélög. Byggingafulltrúaembættið hefur þó í nógu að snúast í umsýslu mála sem tengjast þessu tímabili þ.e á árunum 2005 til 2009, þegar mikið var byggt á stuttum tíma. Ástandið í dag er hinsvegar algjör pattstaða. Verktakar hafa stoppað framkvæmdir á byggingasvæðum og geymt „tæki og tól“ á þeim lóðum, en þó án þess að hefta aðgengi að þeim. Flestir verktakar hafa þó brugðist vel við ábendingum okkar um tiltektir og að hefta aðgengi að þeim „byggingasvæðum“, sem oft virðast áhugaverð leiksvæði krakka í nágrenni þeirra. Nú eru hinsvegar liðin þrjú ár frá fallinu og ljóst að samdrátturinn er að taka mun lengri tíma en menn vonuðust til. Byggingaleyfi eru því jafnvel fallin úr gildi og verktakar þurfa jafnvel að endurskoða hvað þeir hyggjast gera við sín „tæki og tól“ sem eru enn á byggingalóðum í íbúðarhverfum, og þá sérstaklega þeir fáu verktakar sem ekki hafa orðið við beiðni okkar um tiltekt og fl. Vonast er þó til að líf fari að færast í byggingaiðnaðinn þannig að málin fari aftur í sinn eðlilega farveg. En þangað til verða allir að sína ákveðna tillitsemi og þolinmæði.

Nánar er fjallað um málið í Víkurfréttum á morgun.