Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ásmundur: Virðulegasti vinnustaður landsins
Þriðjudagur 18. júní 2013 kl. 06:46

Ásmundur: Virðulegasti vinnustaður landsins

-Annasamt og skemmtilegt starf á þingi

Ásmundur Friðriksson nýr þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi segist vera afar ánægður með nýja vinnustaðinn sinn, Alþingi. Hann segist vera heppinn að því leytinu til að vinnan hans verði yfirleitt að áhugamálinu hans og engin breyting sé þar á núna.

Ásmundur var áður bæjarstjóri í Garði og hann segir margt svipað með störfum alþingismanns og bæjarstjóra. „Þingmannsstarfið er ekki ósvipað því að vera bæjarstjóri. Þú getur auðveldlega gert bara það sem þú átt að gera samkvæmt starfslýsingu frá klukkan níu til fjögur, en störfin snúast bæði mikið meira um það hvað þú leggur sjálfur að mörkum umfram það sem sérstaklega er gert ráð fyrir. Þetta aukaframlag og að vera alltaf tilbúinn þegar fólkið þarf á manni að halda er svo mikilvægt. Svara símanum og tölvupóstum þegar fólk þarf að komast í samband við þingmanninn sinn hvenær og hvar sem er eru vinnubrögð sem ég tamdi mér sem bæjarstjóri og mun gera sem þingmaður. Það er líka mikilvægt að hafa frumkvæði, koma með lausnir og vera í lifandi samstarfi við fólkið. Starfið verður eins og ég mun móta það, annasamt, skemmtilegt og vonandi árangursríkt,“ sagði Ásmundur í samtali við blaðamann Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Formfesta rík á þinginu

Ásmundur segir að margt á Alþingi sé öðruvísi en hann hafi gert sér í hugalund. „Formfestan er hlutur sem ég kann mjög vel við og hún er rík í þinginu. Ég hlakka til að finna nýja sýn og leiðir til að láta gott af mér leiða og mun leggja mig fram um að stunda þingið vel. Það er þó mikill misskilningur sem margir halda að þingmenn séu að slugsa í vinnunni ef þeir eru ekki í þingsal þegar sjónvarpið er þar. Mikið af þeirra störfum og e.t.v. flest fara fram utan þingsalar.“

Ásmundur segir mikilvægt að bera virðingu fyrir starfi alþingismanna og líka þeim reglum og hefðum sem gilda á Alþingi. „Í mínum huga er Alþingi virðulegasti vinnustaður landsins og þar er mikilvægt að við berum virðingu fyrir starfinu og þeim hefðum og reglum sem þar gilda. Klæðnaður þingmanna á að vera óaðfinnanlegur í þingsal að mínu mati. Jakkaföt, skyrta og bindi hjá körlum. Virðuleg umgjörð er grundvöllur virðingar og bættrar framkomu þingmanna í þingsal.“ Ásmundur kann að meta vingjarnlegt viðmót starfsfólks á þingi og hann segir vinnubrögð þeirra algjörlega til fyrirmyndar. „Ef við þingmenn skilum störfum okkar með þeim hætti mun virðing þingsins aukast. Ég mun leggja mig fram um það,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segir þingmenn og starfsfólk þingsins hafa tekið honum og öðrum nýliðum með þéttu og hlýju handtaki og góðum óskum um gott gengi og samstarf. Hann segist jafnframt hlakka til samstarfsins.

„Í þinginu gefst tækifæri til að hafa áhrif á fjölda mála sem skipta þjóðina og okkur öll miklu máli. Mikilvægast hverjum þingmanni er traust og gott bakland, án þess næst enginn árangur í starfinu. Ég hlakka til að vinna með öllum íbúum kjördæmisins að málefnum sem skipta kjördæmið og landið allt máli.“