Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ásmundur gengur síðasta spölinn í „Kjördæmið á enda“
Fimmtudagur 27. desember 2018 kl. 10:59

Ásmundur gengur síðasta spölinn í „Kjördæmið á enda“

Ásmundur Friðriksson alþingismaður hefur allt þetta ár gengið um Suðurkjördæmi undir kjörorðinu „Kjördæmið á enda“. Frá Hvalnesskriðum í austri að Garðskagavita er vegalengdin um 550 km. eftir akvegi en Ásmundur hefur gengið tæpa 700 km. Síðasti áfanginn er eftir, frá Keflavík og út á Garðskaga. Hann verður farinn á sunnudaginn, 30. desember. Lagt verður upp í gönguna frá bílastæðinu við Keflavíkurkirkju kl. 12.
 
„Ég vona að þeir mörgu sem lýst hafa áhuga á að ganga með mér lokasprettinn frá Keflavíkurkirkju að Garðskagavita, 12 km leið mæti og eru allir hjartanlega velkomnir.  Þeir sem vilja ganga styttri leið geta komið inn í hópinn kl. 13.45 við SI verkstæðið hjá Sigga Ingvars í Garðinum en þaðan eru um 3 km að Garðskagavita. Við lok göngunnar verður boðið uppá heita súpu og hressingu,“ segir Ásmundur á fésbókarsíðu sinni. 
 
„Með þessari göngu næ ég einnig að ljúka við 200 ferðir í Garðinn en árið 2007-2008 gekk ég 100 ferðir í Garðinn til að senda vini mínum Sævar Guðbbergssyni góðar hugsanir og baráttukveðjur í veikindum hans. Því hef ég haldið áfram og sent fleiri veikum vinum mínum góðar hugsanir og baráttukveðjur á gönguferðum mínum víða um landið frá þeim tíma. Það hefur allavega hjálpað mér að takast á við erfiðleika góðra vina,“ segir Ásmundur jafnframt.
 
Þeir sem ætla að taka þátt í göngunni í Garðinn eru hvattir til að skrá sig til þátttöku á fésbókarsíðu Ásmundar Friðrikssonar eða með skilaboðum til hans.
 



Kort sem sýnir gönguleiðirnar sem Ásmundur hefur farið á árinu. Aðeins á eftir að ganga frá Keflavík og út í Garð en endað verður á Garðskaga á sunnudaginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024