Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ásmundur bæjarstjóri í Garði?
Miðvikudagur 20. maí 2009 kl. 19:07

Ásmundur bæjarstjóri í Garði?

Ásmundur Friðriksson, verkefnastjóri hjá Reykjanesbæ, verður næsti bæjarstjóri í Garði samkvæmt tillögu sem samþykkt var samhljóða í bæjarráði að senda fyrir bæjarstjórnarfund sem verður á föstudaginn. Aukafundur í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs verður á föstudag og mun hann taka fyrir tillögu þess efnis.

Bæjarráðsfundi var að ljúka í Garði nú rétt áðan þar sem samþykkt var að vísa tillögu þess efnis að ráða Ásmund Friðriksson í starf bæjarstjóra út kjörtímabilið til sérstaks aukafundar í bæjarstjórn á föstudaginn. Fráfarandi bæjarstjóri, Oddný Guðbjörg Harðardóttir, er sest á Alþingi sem þingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi.

Samtals sóttu 52 einstaklingar um starf bæjarstjóra í Garði sem auglýst var nýverið. Af þeim voru tíu teknir í atvinnuviðtal og eftir þau stóð valið á milli tveggja einstaklinga. Það var síðan niðurstaða meirihlutans í Garði að leggja til við bæjarstjórn að Ásmundur verði ráðinn bæjarstjóri þar til kjörtímabilinu lýkur vorið 2010.

Ásmundur er ekki ókunnur Garðinum. Hann hefur meðal annars komist í fréttir fyrir það afrek að hafa á einu ári gengið 100 ferðir frá Reykjanesbæ og út í Garð. Í 100. gönguferðinni fékk Ásmundur góðar móttökur á bæjarskrifstofunni í Garði. Nú, nokkrum mánuðum síðar, stefnir í að Ásmundur setjist í stól bæjarstjóra, eftir gönguferðirnar eitthundrað.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024