Ásmundi sagt upp í Garði - kostar 36 til 44 milljónir króna.
Samþykkt var á aukafundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs nú í kvöld að segja upp Ásmundi Friðrikssyni bæjarstjóra. Auglýst verður eftir nýjum viðskiptamenntuðum bæjarstjóra á næstu dögum.
Fram kom á fundi bæjarstjórnar í kvöld að uppsögnin á Ásmundi mun kosta bæjarfélagið frá 36 til 44 milljónir króna.
Ásmundur Friðriksson, fráfarandi bæjarstjóri, kom í pontu í kvöld og færði rök fyrir þeim kosnaði sem mun falla á bæjarfélagið sem þarf að greiða honum laun og kostnað upp á 1.400.000 kr. á mánuði næstu 32 mánuði. Þar benti Ásmundur á að hann ætti 24 mánuði eftir af ráðningarsamningi sínum, 6 mánaða biðlaun og þá ætti hann um tvo mánuði af orlofi sem hann ætti eftir að taka út. Benti Ásmundur á að með ráðningu nýs bæjarstjóra út þetta kjörtímabil og biðlauna sem hann fær við lok kjörtímabils og þá ráðningu þriðja bæjarstjórans við upphaf næsta kjörtímabil, þá væru bæjarstjórar að kosta bæjarfélagið um 115 milljónir króna næstu 32 mánuði.
Uppsögn bæjarstjóra var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta N- og L-lista en þrír fulltrúar D-lista voru á móti.
Myndin er frá fundi bæjarstjórnar í Garði í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson