Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áskorunum fjölgar og fleiri hunsaðir
Föstudagur 7. maí 2004 kl. 12:37

Áskorunum fjölgar og fleiri hunsaðir

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar samþykkti áskorun til utanríkis- og forsætisráðherra á bæjarstjórnarfundi nú í vikunni. Í henni stendur að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa ítrekað kallað eftir viðbrögðum ríkisvaldsins vegna þess viðkvæma ástands sem ríkir í atvinnumálum á Suðurnesjum. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar samþykkti tillögu þess efnis í nóvember árið 2003 en hafa engin viðbrögð fengið.
Nú er svo komið að bæjarstjórnin í Sandgerðisbæ, líkt og bæjarstjórnin í Reykjanesbæ, krefst þess að utanríkis- og forsætisráðherra hitti sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum á fundi hið fyrsta.
Sigurður Valur, bæjarstjóri í Sandgerði, sagði í samtali við Víkurfréttir að það sé grundvallaratriði núna að í ljósi þessara upplýsinga, sem eru að hrannast upp, að sest sé yfir þessi mál og farið sé yfir þau frá a-ö. „Þetta er ekki einkamál  ríkisvaldsins, þetta er grundvallaratriði í lífi fólks hérna á svæðinu“. Sigurður Valur benti á að hérna á árum áður var mikið samstarf á milli varnarmálaskrifstofunar og sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum. „Á þessu tímabili frá árunum 1990-95 þá voru haldnir samráðsfundir en síðan lögðust þeir fundir af en ég sé mikið eftir þeim fundum því að þar gátu menn fengið upplýsingar um hvað var í vændum á þeim tíma.“
Sigurði finnst mjög alvarlegt mál að þegar menn sem kosnir eru til að starfa fyrir fólkið á svæðinu skuli frétta um uppsagnir í fjölmiðlum. „Það er hlutur sem þarf að laga, ég hvet ráðherrana að verða við þessari áskorun og hitta okkur eða boða okkur á fund til sín.“

Áskorunin birtist hér í heild sinni:
Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa ítrekað kallað eftir viðbrögðum ríkisvaldsins vegna þess viðkvæma ástands sem ríkir í atvinnumálum á Suðurnesjum, einkum með tilliti til samdráttar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar samþykkti m.a. tillögu þessa efnis á 202. fundi sínum 12.11.2003.
Til þessa hafa viðbrögð verið lítil sem enginn. Því krefst bæjarstjórn Sandgerðisbæjar þess að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hitti sveitarstjórnamenn á Suðurnesjum á fundi hið fyrsta, þar sem atvinnumál á svæðinu verða rædd sem og framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Aðgerða er þörf hið fyrsta.

 

Myndin: Frá tjörninni í Sandgerði á vordögum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024