Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 24. janúar 2002 kl. 02:28

Áskorun til sveitarfélaga á Suðurnesjum

Ágæti Suðurnesjamaður
Þann 13. desember sl. var undirritað samkomulag á milli Alþýðusambands Íslands vegna aðildarfélaga sinna og Samtaka atvinnulífsins um frestun á endurskoðun launaliðar kjarasamninga o.fl. Samkomulagið kveður á um skýr viðmið sem fastsetja uppsagnarheimild stéttarfélaganna gangi verðbólguforsendur miðað við maí 2002 ekki eftir.
Markmið samkomulags ASÍ og SA var að stuðla að hjöðnun verðbólgu og treysta kaupmátt launa. Samkomulagið byggði á samráði ASÍ, SA og ríkisstjórnarinnar. Því fylgdu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra um stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun á grænmetisverði og styrkingu verðlagseftirlits, eflingu starfsfræðslu í atvinnulífinu, lækkun tryggingagjalds og fleira.
Í aðdraganda samkomulagsins var mjög varað við fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í landinu um stórfelldar hækkanir á þjónustugjöldum og öðrum íþyngjandi álögum á íbúana. Nú hefur komið í ljós að þessi varnaðarorð áttu fullan rétt á sér. Gjaldskrárhækkanir þessara aðila á síðustu vikum eru ein helsta ógnunin við markmið samkomulags aðila vinnumarkaðarins um lækkun verðbólgu og kaupmátt launa.
Ekki er um það deilt að miklir hagsmunir eru í húfi að það takist að verja markmið samkomulagsins. Jafnframt er ljóst að sveitarfélögin og aðrir opinberir aðilar geta með aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu ráðið úrslitum um það hvort framangreind markmið nást, eða hvort verðbólga fer úr böndunum með afleiðingum sem eru alltof vel þekktar.
Þess er krafist að sveitarfélögin axli sína ábyrgð á því að markmið um lækkun verðbólgu og kaupmátt launa nái fram að ganga. Það verður eingöngu gert með því að draga þegar í stað til baka ákvarðanir sem þegar hafa náð fram að ganga eða eru áformaðar um hækkanir á álögum.
Við undirritaðir, höfum fyrir hönd stéttarfélaga sem við erum í forsvari fyrir, sent sveitarfélögunum á Suðurnesjum áskorun, um að afturkalla nú þegar allar hækkanir og leggja þannig sitt af mörkum til að verja stöðugleikann og lífskjörin í landinu. Ábyrgð þeirra sem ekki verða við þessari áskorun og halda hækkunum sínum til streitu er mikil, nái forsendur samkomulags aðila vinnumarkaðarins ekki fram að ganga.

Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja
Kristján G. Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjóm.félags Keflavíkur og ngr.
Sigfús Eysteinsson formaður Iðnsveinafélags Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024