Áskorun íbúa vegna breytinga á leiðum strætó
Íbúar í Innri-Njarðvíkurhverfi eru mjög óánægðir með nýjar breytingar á strætókerfinu. Sigvaldi Lárusson er einn þeirra íbúa úr hverfinu sem mættu á fund Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar, með mótmælaskjal þar sem hátt í 400 manns skrifuðu undir.
Sigvaldi hafði þetta að segja:
„Forsaga málsins er sú að þann 21. desember kynnir Kjartan Már bæjarstjóri fyrir okkur íbúum Innri-Njarðvíkur fyrirhugaðar breytingar á strætókerfinu, gerir það með fjölpósti á Facebook og það er í raun það fyrsta sem við íbúar heyrum um þetta. Þessu fylgdi kort sem sýndi að strætó mun ekki aka hring um hverfið, eins og hann hefur alltaf gert, heldur mun hann aka beina leið í gegnum hverfið, stoppa á stoppistöð við Stapaskóla og bíða þar í þrjár mínútur. Þetta skerðir þjónustu þeirra barna sem búa í hverfinu og gerir göngu í næsta strætóskýli allt of langa. Nú þurfa börn í þessu hverfi að ganga upp undir einn kílómetra í næsta skýli. Börn allt niður í sex ára gömul sem eru á leið á æfingar. Börnin í þessu hverfi þurfa að sækja allar æfingar til Njarðvíkur, hvort sem er í íþróttahúsið í Njarðvík, fimleikahöllina eða á fótboltaæfingar í Reykjaneshöll. Auk þess þurfa þau jafnvel að hafa með sér hljóðfæri þar sem mörg af þessum börnum stunda nám í Tónlistarskólanum. Strætó er mikilvægt tæki í að auka umferðaröryggi og með því að búa til kerfi sem nýtist fjölda barna og stálpaðra krakka á leiðinni í framhaldsskóla og fullorðinna eykst umferðaröryggi með færri ferðum fólks, minna skutli foreldra, minna kolefnisspori og svo framvegis. Það er algjört lágmark að tryggja það að börn og framhaldsskólanemendur geti nýtt strætóferðir til að komast í kennslustundir. Við tókum saman minnisblað sem við afhentum Guðlaugi, sviðsstjóra umhverfissviðs, þar sem öll okkar rök koma fram hvað varðar þætti eins og umferðaröryggi, kolefnisspor og svo margt annað. Hann segist ætla að skoða málið og boða okkur á fund til sín innan skamms.“