Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ásbrú verði íslenskt íbúahverfi með breyttri ásýnd
Unnið að gróðursetningu á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Laugardagur 11. febrúar 2017 kl. 11:48

Ásbrú verði íslenskt íbúahverfi með breyttri ásýnd

- Ríkið skili Ásbrúarmilljörðum aftur inn á svæðið með uppbyggingu til framtíðar

Breyta þarf amerísku yfirbragði Ásbrúar og gera hana að íslensku íbúahverfi með breyttri ásýnd. Það mun kosta talsverða fjármuni en þá á að sækja til íslenska ríkisins sem hefur á síðasta áratug hagnast um 10 milljarða króna vegna sölu fasteigna í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem síðustu ár hefur gengið undir nafninu Ásbrú. 
 
Frá því Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, KADECO, tók yfir eignir Varnarliðsins fyrir áratug síðan hafa tekjur af þeim rekstri verið upp á 17 milljarða króna en kostnaður við umbreytingu herstöðvarinnar í borgaralegt samfélag hefur á sama tíma verið 7 milljarðar. Þetta þýðir að 10 milljarðar hafa runnið í ríkissjóð. 
 
Nú hefur nær allt húsnæði á svæðinu verið selt út úr rekstri KADECO og því komið í borgaraleg not. Nú síðast með sölu fasteigna fyrir um fimm milljarða króna til Íslenskra fasteigna ehf. Með sölunni hefur Kadeco lokið við að selja um 93% þess húsnæðis sem félagið hefur haft til umsýslu á Ásbrú fyrir hönd ríkissjóðs eftir brotthvarf hersins. Frá þeim tíma hafa fasteignirnar verið seldar til 38 mismunandi aðila í opnu söluferli. Heildarsöluandvirði eignanna frá upphafi nemur samtals um 17,6 milljörðum króna. Þar af hefur Kadeco undanfarin tvö ár selt eignir fyrir 8,5 milljarða. Ætla má að hreinar tekjur Ríkissjóðs af sölu eigna sinna á Ásbrú muni á endanum nema ríflega 10 milljörðum króna.

 
Kostnaður Reykjanesbæjar meiri en tekjurnar
 
Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, SAR, stóðu fyrir fundi í Reykjanesbæ á dögunum þar sem stöðunni á Ásbrú var meðal annars velt upp. Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, fór yfir söguna og hvernig herinn laðaði til sín vinnuafl og stóð þannig í vegi fyrir vexti í sjávarútvegi á Suðurnesjum. Höggið var því mikið þegar herinn fór og atvinnuleysi á svæðinu var það hæsta á landinu árið 2008. Þetta hafði slæm áhrif á rekstur Reykjanesbæjar og fyrirtækja á svæðinu. Gunnar sagði að kostnaður Reykjanesbæjar vegna Ásbrúar hafi frá upphafi verið mun meiri en tekjur sveitarfélagsins á svæðinu. Hann telur að ekki sé óeðlilegt að ríkið leggi til fjármuni sem koma út úr sölu eigna á Ásbrú til uppbyggingar á svæðinu. 
 
Blokkarsamfélag og kalt umhverfi
 
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, flutti einnig erindi á fundi SAR. Hann sagði að Ásbrú væri forsenda fyrir þeim öra vexti sem verið hefur á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtæki hans hafi til að mynda keypt íbúðablokkir á Ásbrú í fyrra til að koma húsaskjóli yfir erlenda starfsmenn sem ráða þurfti til fyrirtækisins. Sigþór sagði að fyrirtækið hefði ekki getað komið svo mörgum starfsmönnum fyrir jafn fljótt án byggðarinnar á Ásbrú. Með byggðinni á Ásbrú hafi Reykjanesbær ákveðið forskot sem verði að nýta vel. Í erindi Sigþórs kom hins vegar fram að hann hefur áhyggjur af ímynd og yfirbragði Ásbrúar. Hún einkennist í dag af blokkarsamfélagi og köldu umhverfi. Uppfæra þurfi Ásbrú, breyta amerísku yfirbragði svæðisins yfir í íslenskt íbúahverfi. Ráðast þurfi í almenna innviðauppbyggingu, skóla, einbýlishúsagötur, græn svæði og fleira.

 
Ekki einkamál Reykjanesbæjar
 
Sigþór sagði að nú þegar verið sé að selja síðustu fasteignirnar á Ásbrú og ljóst að hagnaður af umbreytingu herstöðvarinnar á síðasta áratug sé um 10 milljarðar króna þá eigi meðal annars að nýta fjármuni sem svæðið hafi skapað til uppbyggingar þess. Umræðan um að milljarðana eigi að nota í tvöföldun Reykjanesbrautar, Helguvík og uppbyggingu flugvallarsvæðisins sé á villigötum. Hann segir málið heldur ekki einkamál Reykjanesbæjar, heldur eigi öll sveitarfélögin á svæðinu að láta málið sig varða. Hann leggur til að stofnaður verði starfshópur með öllum hagsmunaaðilum sem fjalla um og samræma áherslur svo allir stefni í sömu átt. 
 
Á fundinum kom fram að byggðin á Ásbrú væri einsleit en á móti kæmi að þar væru stór opin svæði sem auðvelda framtíðarskipulag á svæðinu. Auðvelt sé að bæta inn íbúðagötum fyrir einbýli og raðhús og tengjast fráveitu- og aðveitukerfum. Gatnakerfið í þessu hverfi sé hins vegar langt miðað við íbúafjölda í dag. Á Ásbrú eru reknir tveir leikskólar og grunnskóli. Hann sé reyndar staðsettur langt frá megin íbúabyggðinni og því þurfi að flytja alla nemendur til og frá skóla með almenningssamgöngum. Þá rekur sveitarfélagið hæfingarstöð fyrir fólk með fötlun á Ásbrú.

 
Þarft að brjóta upp hverfið með fjölbreyttari húsnæðistegundum
 
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, sem er eigandi að íbúðahúsnæði á Ásbrú, sagðist sjá mikil tækifæri til frekari þróunar á Ásbrú. Hann sagði að laga þurfi tengingu Ásbrúar og Reykjanesbæjar og efla hverfið með skólum og leikskólum. Hann tók jafnframt undir með Sigþóri Skúlasyni hjá Airport Associates að þarft væri að brjóta upp hverfið með fjölbreyttari húsnæðistegundum. Þá kom fram að Heimavellir eru að vinna í því að bæta og fegra umhverfið við eignir félagsins á Ásbrú. 
 
Gunnar Thoroddsen frá Ásbrú ehf. tók til máls á fundinum. Hann sagði að nú væri unnið að áætlunum um framkvæmdir við þær eignir sem félagið hafi keypt á dögunum. Af 470 íbúðum eru 420 sem þarf að endurbæta og munu koma inn á markaðinn á næstunni. Stefnan er að leigja út eignir en í einhverjum tilfellum verða íbúðir seldar. Þar tók hann undir með Guðbrandi frá Heimavöllum um að skynsamlegt sé að skoða sölu á einhverjum eignum á Ásbrú. 
 
Í dag skortir eitthvað upp á þjónustu á svæðinu. Í máli Gunnars Thoroddsen kom fram að hann hafi þá trú að eftir því sem fleiri íbúar flytjist inn á svæðið þá aukist jafnframt eftirspurn eftir þjónustu á svæðinu og þar með aukist eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði.
 
Verja 2 milljörðum í endurbætur á fasteignum 
 
Ásbrú ehf. keypti 35.000 fermetra af atvinnuhúsnæði af KADECO. Dæmi um eignir eru gamli spítalinn, leikhúsið, Atlantic studios, verslunarhúsnæði og fleira. Kaupverðið var rúmlega 5 milljarðar og gerir fyrirtækið ráð fyrir að verja 2 milljörðum króna í endurbætur á fasteignum.
 
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, lýsti á fundinum yfir samstarfsvilja við alla þá aðila sem vilja koma að því að gera Ásbrú að órjúfanlegum hluta af Reykjanesbæ. Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði um 7,5% á síðsta ári eða um 1.100 manns. Sveitarfélagið þekkir því vel að takast á við stór verkefni.

 
Tækifærin eru á Suðurnesjum
 
Í lok fundar var samþykkt ályktun sem er eftirfarandi:
 
„SAR telur þörf á því að efla atvinnusókn á Suðurnesjum í þeim tilgangi að sameina krafta þeirra sem vinna að atvinnuþróunarmálum og gera sóknina markvissari. Skýra stefnu þarf í því hvers konar atvinnustarfsemi vilji er fyrir að sækja á, byggt meðal annars á innviðum, þekkingu og náttúru svæðisins. Á Suðurnesjum liggja öll helstu tækifæri til atvinnuuppbyggingar og þróunar á landsbyggðinni, hvort sem horft er til Keflavíkurflugvallar, orkunýtingar, ferðaþjónustu og/eða sjávarútvegsins. Með markvissri sókn á ný tækifæri aukum við verðmætasköpun og byggjum upp nýjar stoðir sem munu til framtíðar styrkja og efla okkar svæði. Lagt er til að atvinnuþróunarfélagið Heklan verði efld til að geta tekið þetta hlutverk.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024