Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ásbrú: Ríkið mjólkar – bærinn borgar
Fimmtudagur 25. nóvember 2010 kl. 15:21

Ásbrú: Ríkið mjólkar – bærinn borgar


Ríkissjóður hefur haft 2,5 milljarða í tekjur af starfsemi Ásbrúar á meðan útgjöld Reykjanesbæjar vegna svæðisins eru 700 milljónir umfram tekjur. Bærinn samþykkti á sínum tíma að innheimta ekki opinber gjöld af ónotuðum fasteignum á gamla varnarsvæðinu. Bæjarráð Reykjanessbæjar telur forsendur brostnar fyrir þessari ákvörðun og segir ógjörning fyrir bæjarfélagið að gefa slíkan afslátt af opinberum gjöldum á meðan ríkið taki til sín verulegan hagnað af svæðinu.

Málið var til umfjöllunar á bæjarráðsfundi í morgun. Þar samþykkti bæjarráð að fella úr gildi yfirlýsingu Reykjanesbæjar frá 17. október 2007 um að ekki verði innheimt opinber gjöld af öllum fasteignum á Ásbrú. Ákvörðun bæjarráðs tekur gildi nú um áramótin.

Í bókun sem bæjarráð samþykkti í morgun segir eftirfarandi:

„Í samræmi við lög við brotthvarf varnarliðsins í lok árs 2006 og yfirtöku ríkis á eignum á svæðinu hugðist ríkið nýta tekjur af sölu eigna á svæðinu til uppbyggingar svæðis og þróunar atvinnumála. Í því skyni voru sett lög nr. 176/2006 sem gáfu Þróunarfélagi svæðisins rými til að greiða ekki opinber gjöld af eignum sem félagið hafði ekki ráðstafað með leigu eða sölu. Til að styrkja og hraða uppbyggingu svæðisins samþykkti Reykjanesbær 5. október 2007 að hið sama gilti um eignir sem aðrir keyptu af Þróunarfélaginu, þar til þær eignir færu í not. Styrkur, sambærilegur fasteignagjöldum, yrði veittur til eigna sem þróunarfélagið seldi ef þær voru ekki nýttar. Þannig fengist hreint söluverðmæti án opinberra gjalda sem nýtt yrði til uppbyggingar svæðisins.

Forsendur eru brostnar fyrir þessari ákvörðun. Í stað þess að leggja fjármunina af sölu eigna til þróunar svæðisins hefur ríkið nú tekið til sín um 2500 milljónir kr. Á sama tímabili eru útgjöld Reykjanesbæjar fyrir svæðið um 700 milljónir kr. umfram tekjur. Við erfiðar fjárhagslegar aðstæður er ógjörningur fyrir Reykjanesbæ að gefa slíkan afslátt af opinberum gjöldum og kosta miklu til þegar ríkið tekur til sín verulegan hagnað af svæðinu. Fyrri ákvörðun Reykjanesbæjar frá október 2007 er felld úr gildi og tekur breytingin gildi 1. janúar 2011.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024