Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ársreikningur Reykjanesbæjar: Bati eða binding?
Miðvikudagur 5. apríl 2006 kl. 12:55

Ársreikningur Reykjanesbæjar: Bati eða binding?

Nokkrar umræður urðu um ársreikning Reykjanesbæjar fyrir síðasta ár þegar hann kom til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær. Góður árangur hefur náðst í rekstri bæjarins á undanförnum misserum og segir minnhlutinn það nýlundu að sjá jákvæða niðurstöðu í rekstrarreikningi á þessu kjörtímabili. Það sé hins vegar engin nýlunda að sjá að reksturinn standi ekki undir sér.
Í bókun meirihlutans kemur fram að reksturinn hafi skilað 384 milljón króna afgangi á síðasta ári, sem er talsvert betri árangur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar af skili rekstur bæjarsjóðs tæplega 90 milljón króna afgangi. Fulltrúar minnihlutans benda hins vegar á að reksturinn sýni neikvæða niðurstöðu upp á 174 milljónir þrátt fyrir auknar tekjur og að bæjarsjóður sé rígbundinn í bak og fyrir, eins og segir í bókun. Sitt sýnist því hverjum þegar rýnt er í ársreikninginn.

Bæði meiri- og minnihluti lögðu fram bókanir á fundinum og er bókun meirihlutans á þessa leið:


„HRÖÐ UPPBYGGING SKILAR HAGNAÐI
Rekstur Reykjanesbæjar skilar rúmlega 384 milljón króna afgangi vegna ársins 2005 og er það umtalsvert betri árangur en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir. Þar af skilar rekstur bæjarsjóðs tæplega 90 milljón króna afgangi. Sú hraða uppbygging sem átt hefur sér stað í Reykjanesbæ hefur leitt til þess að íbúafjölgun hefur orðið örari og tekjur sveitarfélagsins hafa vaxið hraðar en áður hafði verið reiknað með.

Auknar tekjur - sömu álögur
Helsta ástæða fyrir þeim góða árangri í rekstri sveitarfélagsins eru auknar skatttekjur. Skatttekjur aukast um 11% á milli ára og heildartekjur sveitarfélagsins um 19%. Á sama tíma aukast rekstrargjöld um 5%. Auknar tekjur sveitarfélagsins eru ekki tilkomnar vegna hærri skattlagningar en meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur tryggt lægra útsvar í Reykjanesbæ en í flestum öðrum sveitarfélögum sem við berum okkur saman við þrátt fyrir að minnihluti Samfylkingar og Framsóknar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi hvatt til hækkunar skatta við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2005.
Tekjur af fasteignum hækka um 40 milljónir á milli áranna 2004 og 2005 og munar þar mestu um þá fjölgun sem varð á íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ á tímabilinu. Ánægjulegt er að benda á könnun ASÍ um fasteignagjöld í 8 stærstu sveitarfélögum landsins en þar kemur fram að íbúar Reykjanesbæjar greiða lægstu fasteignagjöldin af eigum sínum í þeim sveitarfélögum sem borin eru saman.

Sterk eignarstaða
Þvert á stöðugan áróður ýmissa bæjarfulltrúa minnihlutans og stuðningsmanna þeirra um að Reykjanesbær hafi selt allar eignir sínar hefur eiginfjárhlutfall Reykjanesbæjar hækkað á þessu kjörtímabili. Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs er nú rúmlega 42% og hefur hækkað um rúm 2% frá árslokum 2002 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 29% og hefur einnig hækkað um 2% á þessu kjörtímabili. Í krónum talið hafa eignir Reykjanesbæjar umfram skuldið vaxið um 424 milljónir á því kjörtímabili sem nú er að líða.

Áfram Reykjanesbær!
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu áfram leggja ríka áherslu á sókn og uppbyggingu sveitarfélagsins í þeim tilgangi að fjölga íbúum og bæta samfélagið. Um leið verður þess ávallt gætt að vel sé farið með fjármuni bæjarbúa. Standa þarf vörð um sterka stöðu Reykjanesbæjar í Hitaveitu Suðurnesja hf. og Fasteign hf.0 sem bæði hafa skilað afburða árangri í rekstri á síðustu árum.

Góð afkoma Reykjanesbæjar 2005 er staðfesting á því að stefna meirihluta bæjarstjórnar hefur skilað árangri“.



Bókun minnihlutans er svohljóðandi:

„Bæjarsjóður Reykjanesbæjar – rígbundinn í bak og fyrir.

Ársreikningur Reykjanesbæjar vekur athygli fyrir margra hluta sakir. Það er nýlunda á þessu kjörtímabili að sjá jákvæða niðurstöðutölu í rekstrarreikningi. Það er hins vegar engin nýlunda að sjá að reksturinn stendur ekki undir sér. Neikvæð niðurstaða er af rekstri upp á 174 milljónir króna þrátt fyrir að skatttekjur vaxi um rúm 10%, framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga um 22% og þjónustutekjur um 30%. Þá má einnig nefna tekjur af sölu fasteigna upp á tæpar 45 milljónir króna. Jákvæð niðurstaða er síðan fengin vegna hagstæðra fjármagnsliða. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að sveitarfélag sem stöðugt eykur skuldbindingar sínar í formi húsaleigugreiðslna skuli vera rekið með halla ár eftir ár.
Bæjarstjóri lýsir ánægju sinni með niðurstöðu ársreiknings á heimasíðu Reykjanesbæjar en getur þess ekki þar, að þær framkvæmdir sem sjálfstæðismenn hafa staðið fyrir allt þetta kjörtímabil og tala svo mikið um, hafa verið fjármagnaður með sölu eigna. Á sama tíma og önnur sveitarfélög eru að leggja fram ársreikninga sem sýna hagnað af rekstri, hreykja sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ sér af loftbólum“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024