Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni vill skoða sameiningu Voga, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar
Þriðjudagur 9. nóvember 2021 kl. 21:12

Árni vill skoða sameiningu Voga, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar

Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, leggur til í ítarlegum pistli á fésbókinni í kvöld að kostir sameiningar Voga, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar verði skoðaðir. „Betri nútímasamgöngur á S-V horninu GÆTU gert það að verkum að það skiptir vart máli hvar við búum. Hvað þarf til að slíkt verði að veruleika? Eru sveitarfélagamörk að búa í huga okkar íbúanna og forsvarsmanna sveitarfélaga óyfirstíganleg landamæri þar sem hver sveitarstjórn berst fyrir því að íbúar, fyrirtæki og stofnanir staðsetji sig aðeins innan þeirra landamerkja? Er og verður slík barátta skynseminni yfirsterkari? VOGAR gætu verið sterkur brúarsmiður milli höfuðborgarsvæðis, alþjóðaflugvallar, jarðauðlindagarðs með orkuvinnslu, fiskeldis, gagnavera, lífrænnar ræktunar, upplifunarstaða, skipahafna og nær samfelldrar íbúabyggðar með strandlengjunni. Allir hagnast,“ segir Árni m.a. í pistlinum sem má lesa í heild hér að neðan.

Hefur þú tíma til að lesa þetta?
Hvernig væri að hugsa út fyrir rammann?
Skoðum kosti sameiningar Voga, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar!

Betri nútímasamgöngur á S-V horninu GÆTU gert það að verkum að það skiptir vart máli hvar við búum. Hvað þarf til að slíkt verði að veruleika? Eru sveitarfélagamörk að búa í huga okkar íbúanna og forsvarsmanna sveitarfélaga óyfirstíganleg landamæri þar sem hver sveitarstjórn berst fyrir því að íbúar, fyrirtæki og stofnanir staðsetji sig aðeins innan þeirra landamerkja? Er og verður slík barátta skynseminni yfirsterkari?

VOGAR gætu verið sterkur brúarsmiður milli höfuðborgarsvæðis, alþjóðaflugvallar, jarðauðlindagarðs með orkuvinnslu, fiskeldis, gagnavera, lífrænnar ræktunar, upplifunarstaða, skipahafna og nær samfelldrar íbúabyggðar með strandlengjunni. Allir hagnast.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sveitarfélagið Vogar vill nú skoða hvaða kostir og gallar eru við sameiningu við annað/önnur sveitarfélög. Farið er í verkefnið af opnum huga og vonandi verður vel staðið að frekari greiningu kosta og galla. Fleiri ættu að skoða slíka möguleika hér á svæðinu.

Þú sem íbúi, á þínu heimili, í þínu vinasamfélagi, í þínu umhverfi, oftast með börn á framfæri, gerir eðlilega kröfur um gæði þjónustu í nærumhverfi þínu. Þú vilt hafa góða skóla, góða heilsugæslu, fjölbreytni í menningu, stutt í nauðsynjar, góða löggæslu, vandað umhverfi, gott aðgengi að atvinnu og öðrum þörfum fjölskyldu þinnar. Þið viljið hafa góðar ráðstöfunartekjur og þurfa því að borga sem minnst fyrir miklar yfirbyggingar á þjónustu. Ýmislegt fleira, en látum hér staðar numið í upptalningunni.
Það stjórnskipulag sem sér um þetta er oftast ríkið eða sveitarfélagið sem þú býrð í.

Afmörkuð sveitarfélagshugsun er í síauknum mæli flöskuháls í því að veita íbúum góð skilyrði, því við íbúar á suð-vesturhorni landsins sækjum orðið æ oftar út fyrir sveitarfélagsmörk eftir menningu, skólum, þjónustu og vinnu.

Vandinn er að það gilda takmörk, ólíkir starfshættir, viðhorf og viðmið milli forsvarsmanna sveitarfélaga. Að auki kemur ríkisvaldið á mismunandi hátt fram við sveitarfélög. Stundum er það pólitískur meirihluti sveitarstjórnar sem samræmist ekki meirihluta ríkisstjórnar, stundum kerfilægt skipulag sem er ólíkt eftir sveitarfélögum. Við þekkjum þetta allt hér á Suðurnesjum. Heilsugæslan er önnur hér en á höfuðborgarsvæðinu og við berjumst stöðugt fyrir sama rétti þar eins og aðrir landsmenn njóta. Horfum vonaraugum í 15-20 mínútna aksturfjarlægð austar, í Hafnarfjörð og Kópavog. Fjölbreytni menntatækifæra er minni. Við eigum frábært fólk og við búum líka við mörg tækifæri sem aðrir gætu viljað nýta, m.a. tengt alþjóðaflugvelli, góðum höfnum og jarðauðlindagarðinum á Reykjanesi með ótal framtíðartækifæri á sviði umhverfisvænna lausna og atvinnutækifæra.

Samofnir hagsmunir við höfuðborgarsvæðið

Hagsmunir íbúa okkar eru á margan hátt samofnir hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Við eigum að teygja okkur þangað inn til að sameina þessa hagsmuni svo báðir njóti góðs af.
Nú ræða menn um „Flugborgina“ út frá Keflavikurflugvelli, sem gríðarlega mikið efnahagstækifæri framtíðar. Það er raunhæft ef við náum að tengja slíka hugsun inn á höfuðborgarsvæðið.

Borgarlínan, tug milljarða kr. framkvæmd, með þeim möguleikum sem skipulag hennar gæti skapar fyrir betri og umhverfisvænni búsetuskilyrði, gæti teygt sig eftir tvöfaldri Reykjanesbrautinni inn í þessi samfélög. Hvort sem framtíðin býður slíkri línu einnig sjálfvirka einkabíla eða rútur, skapar þessi nýja pæling um samgönguleiðir möguleg tækifæri fyrir hvort tveggja.

Ef horft er yfir sveitarfélagamörk yrði skipulag hafna markvissara. Hvar er skynsamlegast að hafa stórskipahöfnina í Faxaflóða? Straumsvík? Hvernig tengist alþjóðaflugvöllur við landsbyggðina án þess að fara í gegnum umferðarteppur höfuðborgarsvæðisins? Hvað þarf til?

Of þröng hugsun innan sveitarfélagamarka!

Við glímum við ólík viðhorf bæjarstjórna til einföldustu verkefna sem þó kalla eftir að sveitarfélögin finni sameiginlegar lausnir. Það endar stundum í því að ekkert gerist árum saman. Raflínur eru slíkt dæmi. Þar þurfa fjögur sveitafélög að samþykkja nauðsynlegar orkulínur til Reykjanesbæjar og vestar. Sama á við um samgöngukerfi. T.d. þegar bæjarstjórn Reykjanesbæjar í sinni framtíðarsýn, skipulagði möguleika á landi fyrir hraðlestarleið frá Keflavíkurflugvelli inn til höfuðborgarinnar, náði skipulag bæjarins aðeins að næsta sveitarfélagi, inn í Voga. Þar var annað sveitarfélag með sínar hugmyndir. Síðan tók við þriðja sveitarfélagið, Hafnarfjörður, með þriðju skoðunina á skipulagi og voru þegar búin að loka á ýmis slík tækifæri sem hefðu hentað íbúunum vestan við þá og við heilan alþjóðaflugvöll. Hér gildir reglan um okkur... og hin... Hver hugsar um sig. Þannig getur ákvörðun eins sveitarfélags orðið að flöskuhálsi nágrannanna en í andstöðu við heildarhagsmuni.

Sérhvert sveitarfélag er með bæjarstjórn, bæjarstjóra, bygginganefnd, skipulagsstjóra, félagsmálastjóra, fræðslustjóra, íþróttastjóra, æskulýðsstjóra og endalausa runu af stjórum og fulltrúum til að sinna íbúum, en aðeins síns sveitarfélags. Kostnaður hvers sveitarfélags við að raða upp stjórum leikur því á hundruðum milljóna á hverju ári. Sveitarfélög, hlið við hlið af því að... þannig er það bara! Þannig voru línur dregnar í fyrndinni.

Er ekki kominn tími til að hugsa út fyrir rammann?

Er ekki kominn tími til að við stígum út úr þessum stjórnsýslugryfjum, sem við öll erum föst í, oft vegna þess að við erum föst í viðjum fortíðar um gömul sveitarfélagamörk.
Hvernig væri ef stjórnsýsla Hafnarfjarðar og sveitarfélaga Suðurnesja yrði sameinuð?
Ef Grindavík og Suðurnesjabær væru ekki reiðubúin, sem væri auðvitað best, hvernig væri að Vogar og Reykjanesbær ásamt Hafnarfirði, könnuðu möguleika á kostum og göllum sameiningar? Er það ekki einnar messu virði?

Í stjórnkerfinu myndi sparast um 1,3 milljarður kr. á hverju ári, bara í stjórnsýslu- og embættiskerfunum. Betri „samræmdar“ ákvarðanir um heilsugæslu, vegakerfi, skóla, atvinnusvæði, flugvelli og hafnir myndu fylgja í kjölfarið. Slíkt sameinað sveitarfélag myndi skipuleggja samgöngukerfi fyrir allt svæðið. Sömu kröfur um heilbrigðisþjónustu, sömu kröfur um skóla og menntatækifæri, um atvinnusvæði og byggðaskipulag. Betri lausnir fyrir mun minni tilkostnað því við værum ekki að margfalda embættismannakerfið, ef við höfum augun á að einfalda hlutina. Enn meiri hagræðing því ekki væri hver fyrir sig að byggja hafnir, atvinnusvæði, íbúahverfi, jafnvel flugvelli. Við værum að einfalda skipulagið, bæta samgöngur, tryggja öryggi og fjölbreytni í heilbrigðisþjónustu, skólum og auka aðgengi að afþreyingu.

Hafnfirðingar og höfuðborgarbúar héldu þá áfram að byggja með ströndinni í stað þess að þvera íbúabyggðir í gegnum iðnaðarsvæði eða byggja upp fyrir snjólínur fjalla. Bara af því að það tilheyri núverandi skipulagsmörkum þeirra sveitarfélags. Þá eru samgöngur lykilatriðið. Þannig getum við sótt það sem okkur lystir ef samgöngukerfið er samræmt og auðvelt.

Þar er tengingin við höfuðborgarsvæðið. Hafnarfjörður er myndarlegt sveitarfélag, nógu stórt til að hafa stjórnsýslulega burði til að leiða slíkt verkefni með Reykjanesbæ og Vogum. Innan hinnar nýju stjórnsýslu væru því bestu hafnarskilyrði, rétt skipulögð iðnaðar- og atvinnusvæði, gríðarlegir útivistarmöguleikar, jarðauðlindagarður , alþjóðaflugvöllur og nægt frekara landrými fyrir íbúabyggð meðfram ströndinni.
Öflugt, samræmt sveitarfélag

Til yrði tæplega 50 þúsund manna sveitarfélag. Örugg hraðbraut; Reykjanesbraut, mikilvægasti tengiliður í samgöngum.

Slík nálgun myndi skapa nýjar hugmyndir um skipulag íbúabyggða, atvinnusvæða, betri tenginga við landsbyggðina, betri heilsugæslu og samgöngukerfa. Landrými væri nægt til þróunar. Það næði því samt ekki að vera þriðjungur í fólksfjölda af öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Reynsla margra í borgar- og bæjarstjórnum hefur verið að það er kerfið sjálft sem hafnar þessu. Heimaríkir stjórnmálamenn (ég skal alveg hafa verið í þeim hópi ), heimaríkir embættismenn og þögull og þiggjandi hópur íbúa, sem lætur allt yfir sig ganga. Og svo auðvitað nokkrir íbúar sem vilja vera stórir fiskar í lítilli tjörn, frekar en að lifa í stóru tjörninni og njóta stærra lífkerfis fyrir alla. Þeir hafa oftast hæst. Hinir þegja og eru sammála síðasta ræðumanni, ef hann flutti mál sitt vel.
En það eru greinilega einnig til stjórnmálamenn í sveitarfélögum sem hafa opinn hug til breytinga, ef þær skila árangri fyrir íbúa. Þetta er hvatning eins íbúanna til þeirra!

Hvernig væri að þora að hugsa þetta allt upp á nýtt?