Árni Sigfússon var reiðubúinn að taka 6. sætið
Gunnar hafnaði 6. og 7. sætinu
Mál Gunnars Þórarinssonar hafa verið mikið rædd að undanförnu en hann sóttist eftir 1.-2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ á dögunum en þar hafnaði hann í 5. sæti. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar tjáir sig um málið á facebook síðu sinni en þar lýsir hann því yfir að hann hafi verið reiðubúinn að taka 6. sæti og Gunnar myndi þá taka 7. sæti, en Sjálfstæðismenn hafa svo mörg sæti í bæjarstjórn um þessar mundir. Gunnar vildi það sæti hins vegar ekki að sögn Árna.
„Undarleg umræða og rangar staðhæfingar tengdar undirbúningi að sérframboði Gunnars Þórarinssonar. Hann sóttist eftir 1.-2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ en hafnaði í 5. sæti. Hann náði samt ekki tilskildum atkvæðafjölda til að eiga rétt á því sæti á lista samkvæmt prófkjörsreglum. Það sem fáir vita fram að þessu er að þrátt fyrir sterka kosningu í 1. sæti var ég reiðubúinn að fara í 6. sæti að ósk kjörnefndar. Þeirra hugmynd var að Gunnar tæki þá 7. sæti, sem er sami sætafjöldi og við höfum í bæjarstjórn í dag. Ég samþykkti að taka 6. sætið án skilyrða. Gunnar hafnaði 7.sætinu! Þá var honum boðið að fara í 6. sæti. Hann hafnaði því líka. Það var miður. Þessar staðreyndir sýna að það var fullur vilji til að hann ynni með okkur. Einhverra hluta vegna eru þessar upplýsingar ekki að koma fram hjá honum,“ segir bæjarstjórinn.