Árni Sigfússon um viðskiptin við Magma: Eignarhald á auðlindinni er tryggt
Árni Sigfússon, stjórnarformaður HS Veitna og bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að Reykjanesbær hafi keypt land og auðlindir af HS orku í fyrra til að tryggja íbúum hér eignarhald á auðlindinni. Hvers kyns sala á auðlindinni standi ekki til. Þá segir Árni m.a. í svörum sínum að með tilkomu fjársterks aðila sé verið að tryggja fjármagn í virkjanir, sem ekki hefur verið til staðar og að útlendingarnir muni taka áhættu af tilraunaborunum og virkjanaframkvæmdum. Víkurfréttir sendu Árni nokkrar spurningar um þetta eldheita málefni í dag.
Hafa útlendingar með þessum kaupum eignast land og auðlindir á Reykjanesi?
Nei, Reykjanesbær keypti land og auðlindir af HS orku í fyrra og tryggði þannig eignarhald allra íbúa hér á auðlindinni. Ný lög frá 2008 tryggja að ekki er hægt að selja slíka auðlind til einkaaðila, hvort sem þeir eru Íslendingar eða útlendingar.
Er Reykjanesbær að selja eignarhlut sinn í HS orku nú til Magma?
Nei, sveitarfélögin seldu hluti sína á árunum 2008 og 2009. Viðskiptin nú eru á milli Geysis Green Energy og Magma en Íslandsbanki hefur stjórnað sölunni.
Þýðir þetta að heitt og kalt vatn hækki eftir geðþótta HS orku og nýju eigendanna?
Nei, alls ekki. Reykjanesbær á auðlindina og gerir samning um að HS orka vinni hana en síðan taka HS veitur við og flytja inn á heimili íbúa. HS veitur eru í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar. Í samningum á milli HS orku og HS veitna er algerlega óheimilt að hækka gjaldskrá, nema tengt verðlagsþróun.
Þýðir þetta að rafmagnsverð hækki eftir geðþótta HS orku og nýju eigendanna?
Rafmagnsverð er á samkeppnismarkaði. Nú er HS orka með um 10% af markaðnum. Hinn hlutinn er á hendi opinberra aðila. Ef HS orka færi að hækka verðið umfram aðra sem bjóða raforku, er einfaldast að flytja samning sinn yfir á hina. Það er gert með einu símtali. Þess vegna er ólíklegt að samkeppnin virki þannig að einn aðili fari að hækka verðið umfram hina!
Hvað er framundan hjá HS orku?
Með tilkomu fjársterks aðila er verið að tryggja fjármagn í virkjanir, sem ekki hefur verið til staðar. Útlendir aðilar taka áhættuna af tilraunaborunum og virkjanaframkvæmdum en auðlindin verður áfram í eigu íslendinga. Sala á heitu og köldu vatni er í höndum HS veitna. Það að fá erlent fjármagn inn í landið þýðir að unnt verður að afla orku til margvíslegra verkefna sem skapa þúsundir starfa á Suðurnesjum. Það er yfirlýst stefna hins nýja aðal eiganda, sem er jarðfræðimenntaður, að verkefnið sé að sérhæfa sig í jarðvarmavirkjunum og stuðla að sölu á orku til aukinna atvinnutækifæra í landinu.