Árni Sigfússon ákveður sig um áramótin
-verður barátta um oddvitasæti Samfylkingarinnar?
Árni Sigfússon, bæjarstjóri og oddviti meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, ætlar að greina frá ákvörðun sinni um áramótin, hvort hann ætli að gefa kost á sér áfram. Árni kom til Reykjanesbæjar árið 2000 og hefur verið oddviti og bæjarstjóri í bráðum þrjú kjörtímabil.
Vitað er að þrýstingur er á Árna um halda áfram og klára eitt kjörtímabil í viðbót. Flestir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hug á að bjóða fram krafta sína áfram þó þeir hafi ekki allir ákveðið sig endanlega. Ekki er vitað um mörg ný nöfn nema Guðmund Pétursson sem m.a. hefur rekið fyrirtækið ÍAV þjónustu. Mikil endurnýjun varð á lista Sjálfstæðismanna við síðustu kosningar þegar sjö af tíu efstu á listanum voru nýir fulltrúar.
Nefnd á vegum Sjálfstæðisflokksins hefur að undanförnu rætt við bæjarfulltrúa. Á fundi fulltrúaráðs 16. jan. n.k. verður lagt fyrir fundinn hvort stilla eigi upp lista eða efna til prófkjörs sem þá yrði haldið í febrúar. Gefi Árni kost á sér áfram og flestir núverandi bæjarfulltrúar er jafnvel talið líklegt að stillt yrði upp á lista. Samkvæmt skoðanakönnun Morgunblaðsins í nóvember myndi flokkurinn halda 6 mönnum af 7 og hreinum meirihluta áfram í bæjarfélaginu, ef kosið yrði í dag.
Barátta hjá Samfylkingu
Hjá Samfylkingunni hefur Friðjón Einarsson gefið það út að hann ætli að halda áfram en hann var efstur á lista fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Heyrst hefur að Eysteinn Eyjólfsson sem skipað hefur 2. sæti flokksins í bæjarfélaginu hafi áhuga á að bjóða sig í oddvitasætið. Hann sagði í samtali við VF að hann væri ekki búinn að taka ákvörðun en væri að velta því fyrir sér. Þriðji bæjarfulltrúi flokksins, Guðný Kristjánsdóttir er að hugsa sinn gang.
Kristinn Jakobsson, oddviti og eini bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, mun líklega leiða listann áfram en hann hefur óskað eftir því. Á fundi Framsóknarfélags Reykjanesbæjar í nóv. sl. var samþykkt að stilla upp á lista.
Forráðamenn Vinstri Grænna í Reykjanesbæ hafa sagt að þeir muni ekki bjóða fram í vor. Ekki er vitað um stöðu hjá Bjartri framtíð og Pírötum sem fengu góða niðurstöðu í skoðanakönnun nýlega en hvorugt framboðið hefur boðið áður fram í Reykjanesbæ.