Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni Ragnar Árnason látinn
Þriðjudagur 17. ágúst 2004 kl. 08:14

Árni Ragnar Árnason látinn

Árni Ragnar Árnason alþingismaður lést á líknardeild Landspítalans í gær, mánudaginn 16. ágúst, 63 ára að aldri.
Árni Ragnar var fæddur á Ísafirði 4. ágúst 1941, sonur hjónanna Árna Ólafssonar skrifstofustjóra og Ragnhildar Ólafsdóttur húsmóður.
Árni Ragnar lauk prófi frá Samvinnuskólanum 1960 og starfaði fyrst hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Hann var útibússtjóri Verslunarbanka Íslands 1966-1971, en rak síðan um árabil bókhaldsstofu í Keflavík með útibú víðar.
Árni Ragnar var formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Keflavík, 1966 til 1971 og var í stjórn SUS, 1969-1974. Hann átti sæti í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Keflavík, síðar Reykjanesbæ, frá 1964 og var formaður þess 1987 til 1991. Hann var í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi og síðar Suðurkjördæmis frá 1966. Hann var bæjarfulltrúi í Keflavík 1970-1978.
Árni Ragnar var einn af stofnendum JC Suðurnes og fyrsti forseti þess og landsforseti JC Íslands 1976-1977. Hann var sæmdur öllum æðstu viðurkenningum JC-hreyfingarinnar á Íslandi og útnefndur heiðursfélagi JC Íslands og Senators.
Árni Ragnar var fyrst kosinn á Alþingi árið 1991 sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi. Hann var þingmaður Suðurkjördæmis frá 2003 til dánardægurs. Á Alþingi átti hann sæti í fjölmörgum fastanefndum. Þá var hann fulltrúi þingflokksins í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Eftirlifandi eiginkona Árna Ragnars er Guðlaug P. Eiríksdóttir og eiga þau fjögur uppkomin börn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024