Árni Johnsen segir Ragnheiði hafa litla reynslu og þekkingu
Svo virðist sem kosningabaráttan fyrir prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi á morgun sé farin að harðna, alla vega um toppsæti listans. Á vefnum eyjafrettir.is er haft eftir Árna á fjölmennum kosningafundi að reynslulítil kona úr Garðabæ, sem þyrði ekki í framboð í Suðvesturkjördæmi, hefði litla þekkingu á málefnum kjördæmisins, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, ætti lítið erindi við Eyjamenn.
„Ég legg áherslu á að reka drengilega kosningabaráttu og þrátt fyrir að hafa ekki setið í 17 ár á þingi tel ég mig vera með mikla reynslu eftir að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra í þremur embættum og sinnt öðrum störfum,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir aðspurð út í þessi ummæli Árna. Þau tvö berjast um efsta sæti listans.
„Mínar rætur eru úr Keflavík og ég þekki því vel til kjördæmisins og málefna sem snerta það. Umfram allt vil ég einbeita mér að málefnum framtíðarinnar og verkefnunum framundan og vona að við Sjálstæðismenn náum að stilla upp sigurstranglegum baráttulista fyrir komandi kosningar .
Það vakti nokkra athygli í Eyjum að bæjarstjórinn Elliði Vignisson og formaður ungra sjálfstæðismanna, Sindri Ólafsson voru í stuðningsauglýsinu Ragnheiðar. Í fréttinni á eyjafrettir.is er það tekið fram að Elliði og Páley Borgþórsdóttir, formaður bæjarráðs hafi ekki mætt á fundinn hjá Árna, þau hafi ekki átt heimangengt.
Stuðningsmenn Elínar eru í baráttunni líka og sendu fyrir stuttu síðan þessa tilkynningu:
Stuðningmenn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, frambjóðanda í 1. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, standa fyrir opnu húsi í sjálfstæðishúsinu í Njarðvík í kvöld frá klukkan 20-22. Í tilkynningu stuðningsmanna segir: „Tilgangurinn er hreinn og klár - að hrista saman gott fólk kvöldið fyrir kjördag!“.
Í tilkynningunni segir jafnframt
„Ragnheiður Elín hefur verið á ferð um Suðurnesin undanfarna daga, heimsótt fjölmarga vinnustaði og hitt heilan helling af góðu fólki. Mikil stemmning virðist vera meðal Suðurnesjamanna um að taka þátt í prófkjörinu á morgun og mikill einhugur í heimamönnum um kjósa Ragnheiði í forystusætið.“
„Við hvetjum fólk til að fjölmenna í sjálfstæðishúsið í kvöld kl. 20, þiggja léttar veitingar og mynda góða stemmningu fyrir prófkjörið á morgun“.
Ragnheiður segir að hún hafi fengið glimrandi móttökur, alls staðar í kjördæminu en hún verður með opið hús í kvöld í sjálfstæðishúsinu í Njarðvík kl. 20 þar sem allir eru velkomnir.