Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Árni: Bág staða Fasteignar tilbúningur
Fimmtudagur 22. maí 2008 kl. 12:42

Árni: Bág staða Fasteignar tilbúningur

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og varaformaður stjórnar Eignarfélagsins Fasteignar, segir í samtali við Víkurfréttir að fréttir af bágri stöðu félagsins séu tilbúningur. Sú staðreynd að Sandgerðisbær hafi tekið þá ákvörðun um að lána Fasteign fyrir framkvæmdum við stækkun grunnskólans breyti því ekki að félagið sé stöndugt. Þá hafi það engin áhrif á framkvæmdir á vegum félagsins í Reykjanesbæ.

„Það er í sjálfu sér ekkert nýtt í þessu. Það vita allir að allar bankastofnanir eiga í erfiðleikum með að fá lánsfé og sama á við hvar sem er. Öll verkefni okkar eru á áætlun. Framkvæmdir við Hljómahöllina eru á fullri ferð og allir leikskólar eru á réttri leið.“

Árni segir að ástandið á fjármálamarkaði hafi viss áhrif á félagið. Því séu skoðaðar aðrar leiðir í fjármögnun.

„Þar kemur það upp að Sandgerði treystir sér til að lána [Fasteign fyrir framkvæmdum við Sandgerðisskóla] og velur það frekar en að ávaxta fé sitt með öðrum hætti og það er örugglega snjallt hjá þeim.“

„Félagið er mjög stöndugt eins og menn þekkja. Það þarf hins vegar lánsfjármagn eins og hver annar og það mætir ákveðnu stoppi en þó höfum við [Fasteign hf.] verið að fá fjármagn þegar aðrir eru stopp af því að við erum stórir. Það gefur hins vegar öðrum færi á að koma með aðrar hugmyndir eins og þarna er að gerast hjá Sandgerði.“

Þegar horft er fram í tímann segir Árni  að ef bankastoppið verði viðvarandi í framtíðinni gæti það haft áhrif á fjármögnun margra verkefna, bæði opinberra og einkaverkefna. Það sé hins vegar ómögulegt að spá um slíkt því það ylti á efnahagsástandi og lánamöguleikum banka.

Hann leggur þó áherslu á að alvarleiki mála sé ekki mældur eftir stærð fyrirsagna í blöðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024