Arndís Lára dúx á haustönn FS
Fjölbrautaskóli Suðurnesja útskrifaði 83 nemendur af haustönn í fámennri athöfn
Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 19. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 83 nemendur; 73 stúdentar, tólf úr verknámi, átta úr starfsnámi og einn af framhaldsskólabraut. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Karlar voru 46 og konur 37. Alls komu 54 úr Reykjanesbæ, átján úr Suðurnesjabæ, sjö úr Grindavík og einn úr Vogum. Þá kom einn frá Bolungarvík, Húsavík og Garðabæ.
Að þessu sinni var útskriftin með breyttu sniði vegna fjöldatakmarkana. Útskriftarnemendum var skipt í tuttugu manna hópa og kom hver hópur í salinn og tók við skírteinum sínum. Engir gestir gátu verið viðstaddir en þess í stað var dagskránni streymt. Að öðru leyti var dagskráin með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson, skólameistari, afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir, aðstoðarskólameistari, flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Júlíus Viggó Ólafsson, nýstúdent, flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Kristjana Hildur Gunnarsdóttir, kennari, flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju fluttu nýstúdentar tónlist við athöfnina en þar lék Kristján Jón Bogason á píanó, Júlíus Viggó Ólafsson söng og Már Gunnarsson söng og lék á píanó.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Júlíus Viggó Ólafsson fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda skólans, Aron Elvar Ögmundsson, Fanney Lovísa Bjarnadóttir og Thelma Lind Pálsdóttir fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur í félagsfræði, Olivia Anna Canete Apas fyrir árangur sinn í fata- og textílgreinum, Eva Rós Jónsdóttir fyrir myndlist og Ronnel Haukur Viray fyrir þýsku. Vigdís María Þórhallsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur í félagsfræði og gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum, Kristjana Oddný Björgvinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í líffræði og einnig fyrir efnafræði, Jóhanna Lilja Pálsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn í spænsku og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði, Margrét Ír Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í efnafræði og hún fékk einnig verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og þá fékk Siguróli Valgeirsson verðlaun frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í verk- og starfsnámi og hann fékk einnig gjafir frá Johan Rönning, Reykjafelli og Ískraft fyrir góðan árangur í rafiðngreinum. Martyna Daria Kryszewska fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku og efnafræði, hún fékk verðlaun frá Verkfræðistofa Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði, gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum og verðlaun frá Hinu íslenska stærðfræðifélagi fyrir góðan árangur í stærðfræði. Eiríka Lín Friðriksdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku, spænsku, viðskiptafræði, hagfræði og líffræði. Natalia Jenný Lucic Jónsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í íslensku, spænsku, efnafræði og líffræði, hún fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í íslensku, verðlaun frá Verkfræðistofa Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og gjöf frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræðigreinum. Arndís Lára Kristinsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku, íslensku og spænsku, hún fékk gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum, verðlaun frá Verkfræðistofa Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og verðlaun frá Hinu íslenska stærðfræðifélagi fyrir árangur í stærðfræði.
Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Arndís Lára Kristinsdóttir styrkinn. Hún útskrifaðist af Fjölgreinabraut með meðaleinkunnina 9,62. Arndís hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Vegna samkomutakmarkana var ávarpið tekið upp fyrir athöfnina.
Júlíus Viggó Ólafsson söng við undirleik Sævars Helga Jóhannssonar.
Kristján Jón Bogason lék á píanó.
Arndís Lára tekur við viðurkenningu frá Kristjáni Ásmundssyni, skólameistara FS.