Árna Sigfússyni þökkuð störf með Árnastofu

Aðalfundur Keilis var haldinn þriðjudaginn 8. maí síðastliðinn og lauk þar með ellefta starfsári skólans sem var stofnaður 4. maí 2007 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Á þessum tíma hefur skólinn brautskráð yfir 3.000 nemendur, hefur á sjötta tug starfsmanna og með árlega veltu yfir milljarð króna. Margt hefur breyst frá því að skólinn var stofnaður, en meðal þess sem haldist hefur óbreytt á þessum tíma er að Árni Sigfússon hefur frá fyrsta fundi verið formaður stjórnar Keilis. Stýrði hann sínum tíunda, en jafnframt sínum síðasta aðalfundi, þar sem hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Á aðalfundinum minnti Árni fundargesti á hvernig ástand menntamála var þegar Keilir var stofnaður og við brotthvarf bandaríkjahers. Þá hafi einungis um 12% íbúa Reykjanesbæjar verið með háskólamenntun, en nú sé hlutfallið hinsvegar komið í 28% sem er áþekkt höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur hlutfall þeirra sem hafa lokið öðru námi einnig hækkað. Þannig hafi Keilir smíðað plógjárn úr sverðum, aukið menntunarstig á Suðurnesjum og fært ferska vinda inn í kennslu og námsgreinar hér á landinu.

Bætti Árni við að rekstur Keilis sé nú loks í jafnvægi og þar hafi skipt mestu að gengið hafi verið frá fjárfestingarskuld við ríkið sem gjörbreytir stöðu skólans til framtíðar. Þakkaði Árni Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og stjórnarformanni félagsins, Georg Brynjarssyni, fyrir þessa niðurstöðu. Þá þakkaði hann núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum fyrir vinnu sína og framlag til framgangs skólans, ásamt starfsfólki Keilis sem hafi haldið orðspori skólans á lofti frá upphafi. Að lokum þakkaði stjórnarformaður sérstaklega framkvæmdastjóra Keilis fyrir hans þátt í velgengni skólans. 

Stjórn, framkvæmdastjóri og starfsfólk Keilis færði Árna Sigfússyni þakkir fyrir þátt hans í uppbyggingu skólans, en á aðalfundinum var afhjúpað heiti á nýrri skólastofu Keilis Árnastofu honum til heiðurs.

Ný stjórn Keilis var skipuð á aðalfundinum og kom Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, nýr inn í stjórn félagsins í stað Árna Sigfússonar. Kjartan Már var í kjölfarið skipaður formaður stjórnar á fyrsta stjórnarfundi Keilis að loknum aðalfundi. Stjórn hélst að öðru leyti óbreytt milli ára.

Stjórn Keilis 2018 - 2019: www.keilir.net/is/um-keili/stjorn-keilis
Ársskýrsla Keilis 2017: www.keilir.net/static/files/Keilir/PDF/arsskyrsla-2017.pdf