Arion banki hefur lánað United Silicon átta milljarða
Arion banki hefur samtals lánað United Silicon átta milljarða króna. Afskriftir eru framundan en ekki er á hreinu hversu mikið af fjárhæðinni þarf að afskrifa. Eignarhlutur bankans var 16,3% en í bókum þeirra hefur það verið fært niður.
Árshlutareikningur Arion banka var birtur í gær og í honum koma þessar upplýsingar meðal annars fram.
Rekstur hefur verið erfiður í kísilmálmverksmiðjunni og óskaði United Silicon, sem rekur hana, meðal annars eftir greiðslustöðvun nú fyrr í mánuðinum. Einnig hefur verið erfitt að halda rekstri í verksmiðjunni gangandi, meðal annars vegna bilana. United Silicon þarf að greiða ÍAV hf. einn milljarð króna samkvæmt dómi sem gerðardómur úrskurðaði í sumar og því er ljóst að staða fyrirtækisins er ekki góð.
Í samtali við RÚV segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, að bankinn fylgist vel með þróun mála og leggi félaginu lið í greiðslustöðvun sem helsti lánveitandi. Hann segir einnig að það sé forgangsverkefni að klára nauðsynlegar úrbætur á verksmiðjunni þannig að framleiðsla og umhverfisþættir starfseminnar verði í lagi til frambúðar og verksmiðjan starfi í sátt við samfélagið.