Árið sem hefur reynt á allt og alla
„Árið 2020 er á enda runnið. Þetta óvenjulega, erfiða og skrýtna ár. Árið sem hefur reynt á allt og alla, þar sem leitað hefur þurft leiða til að láta lífið og tilveruna ganga upp. Mér finnst það hafa tekist ótrúlega vel, þrátt fyrir allt. Við höfum verið svo lánsöm hér í sveitarfélaginu okkar að vel hefur tekist að halda uppi þjónustu sveitarfélagsins, þótt hún hafi verið háð takmörkunum á sumum sviðum. Mest um vert þykir mér að vel hefur tekist að verja þjónustu við börn og ungmenni. Leikskólinn og grunnskólinn hafa sinnt sínu hlutverki með sóma, oft við erfiðar aðstæður. Sú staðreynd að unnt hefur verið að halda úti þeirri starfsemi hefur verið þýðingarmikið fyrir yngstu íbúa okkar,“ skrifar Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum í pistli sem hann skrifar um áramót.
„Rekstur sveitarfélagsins hefur ekki farið varhluta af þeim hremmingum sem orðið hafa í samfélaginu. Mestu hefur munað um samdráttinn í ferðaþjónustunni á landsvísu, sem að sönnu hefur einnig mikil áhrif hér í okkar landshluta. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er hæst á öllu landinu, og við þær aðstæður reynir mikið á hjá þeim sem verða fyrir því að missa lífsviðurværi sitt. Áhrifin eru einnig mikil á tekjur sveitarsjóðsins, en bæði útsvarsstofn og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa dregist saman á árinu með tilheyrandi tekjufalli. Þrátt fyrir það hefur sveitarfélagið ekki fengið neinn stuðning frá ríkisvaldinu líkt og mörg sveitarfélög sem í vanda eru stödd, a.m.k. ekki enn sem komið er. Við höfum því neyðst til að mæta minni tekjum með auknum lántökum. Sem betur voru skuldir sveitarsjóðs viðráðanlegar fyrir, en undanfarin ár höfum við getað fjármagnað rekstur okkar og framkvæmdir að stærstum hluta með sjálfsaflafé. Það kemur sér vel núna þegar á brattan er að sækja, sem gerir okkur kleift að ráðast í lántökur og ráða við þær a.m.k. um hríð.
Mikilvægt er að rekstrarhorfur batni þó fljótt. Það er margt jákvætt að gerast hjá okkur, þrátt fyrir erfitt árferði. Nú eru hafnar framkvæmdir við uppbyggingu á Grænuborgarsvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir að um 800 nýjar íbúðir rísi á næstu 10 árum. Það eru sannarlega jákvæðar fréttir fyrir okkur að fá slíka innspýtingu í samfélagið okkar, bæði með framkvæmdunum meðan á þeim stendur sem og öllum þeim fjölda nýrra íbúa sem hingað munu flytja og með því renna styrkari stoðum undir rekstur sveitarfélagsins og efla og styrkja mannlífið.
Starf Ungmennafélagsins Þróttar stendur í blóma um þessar mundir. Starfið er afar þýðingarmikið fyrir börn og ungmenni okkar, sem og alla þá sem góðs njóta af starfinu. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með góðu gengi félagsins, ekki síst í meistaraflokki karla í knattspyrn, sem náðu frábærum árangri á Íslandsmótinu í ár. Framtíð félagsins er sannarlega björt.
Önnur félagasamtök sinna verkefnum sínum af miklum krafti og með sóma, hvort sem það er Golfklúbburinn, Sögu- og minjafélagið, Skógræktarfélagið Skógfell, Lionsklúbburinn Keilir, Björgunarsveitin Skyggnir, Hestamannafélagið Vogahestar, Vélavinir, Norræna félagið og að ógleymdu Kvenfélagi Fjólu. Öllum þessum félögum og þeim einstaklingum sem taka þátt í starfinu eru færðar góðar þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf sem þau sinna sjálfum sér og öðrum til ánægju og framfara í samfélaginu,“ segir Ásgeir bæjarstjóri í pistlinum.