Áreitti farþega og sparkaði í gegnum hurð á salerni
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í fyrradag afskipti af flugfarþega, sem var að koma með flugi frá Riga í Lettlandi, vegna kvartana um dólgslæti hans í fluginu. Hann hafði látið ófriðlega og áreitt aðra farþega. Flugáhöfnin hafði tekið af honum viskí flösku á leiðinni og var hann mjög ölvaður þegar lögreglumenn fylgdu honum frá vélinni. Var tekin ákvörðun um að færa hann á lögreglustöð til að láta hann sofa út sér vímuna.
Í lögreglubifreið á leiðinni var maðurinn mjög æstur og lét illa. Hann var vistaður í fangaklefa þar sem hann lét ekki af hegðun sinni. Nokkru síðar var honum hleypt á salerni á lögreglustöðinni og sparkaði hann þá í gegnum salernishurðina.
Það var ekki fyrr en nokkrum tímum síðar að hann náði áttum og var þá tekin af honum skýrsla og hann látinn laus.