Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Áratugur frá strandi Wilson Muuga
    Wilson Muuga í fjörunni við Hvalsneskirkju. VF-mynd: Ellert Grétarsson
  • Áratugur frá strandi Wilson Muuga
Mánudagur 19. desember 2016 kl. 09:46

Áratugur frá strandi Wilson Muuga

Í dag er áratugur liðinn síðan flutningaskipið Wilson Muuga strandaði í Hvalsnesfjöru. Beiðni um dráttarbát barst frá skipinu seint um nótt. Í fyrstu var ekki vitað hvar skipið væri strandað en björgunarskip voru send út bæði frá Sandgerði og Grindavík. Skipið fannst svo langt uppi í fjöru við Hvalsneskirkju. Fjórtán manns voru í áhöfn.

Viðbragðsaðilar settu upp aðstöðu við Hvalsneskirkju en þaðan sást vel yfir strandstaðinn. Danska varðskipið Triton heyrði hjálparbeiðnina frá Wilson Muuga og bauð fram aðstoð sína. Var léttabátur sjósettur frá skipinu með átta mönnum. Honum hvolfdi í brimgarðinum ekki langt frá strandstað. Við þetta slys breyttist atburðarásin.

Átta skipsverjar á danska varðskipinu Triton voru hætt komnir í brimsköflunum þegar gúmbát þeirra hvofldi. Einn þeirra drukknaði en hinum var bjargað með ævintýralegum hætti úr öldum sem voru á hæð við þriggja hæða hús og vann þyrlusveit Landshelgisgæslunnar þar mikið afrek.

Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum höfðu verið kallaðar út og þá var óskað eftir aðstoð björgunarsveita af höfuðborgarsvæðinu með mesta forgangi.

Samskiptin við skipstjóra Wilson Muuga gengu erfiðlega. Hann vildi ekki láta bjarga áhöfninni frá borði en björgunarsveitir höfðu frá því í birtingu unnið að því að koma línu um borð í skipið. Einnig voru þyrlur Landhelgisgæslunnar tiltækar til að hífa áhöfnina í land. Skipstjórinn vildi hins vegar bara fá dráttarbát til að draga skipið á flot og halda ferðinni til Rússlands áfram.

Þegar Wilson Muuga strandaði aðfaranótt 19. desember 2006 voru aðstæður mjög slæmar á strandstað, vaxandi straumur, áhlaðandi og mikill vindur. Spáð var áframhaldandi roki næstu daga. Um borð í skipinu voru 145 tonn af svartolíu og 33 tonn af annarri olíu.Var í upphafi óttast að olía úr skipinu gæti komist út í umhverfið og valdið mengunarslysi og var strax hafist handa við að gera ráðstafanir til að fjarlægja olíuna úr skipinu. Tókust þær aðgerðir giftusamlega og lítil olía komst út í umhverfið og olli hverfandi skaða. Í mars 2007 tilkynnti umhverfisráðherra að samkomulag hefði náðst við eigendur skipsins um að fjarlægja það af strandstað og var skipið dregið á haf út þann 17. apríl 2007.

Flogið yfir strandstaðinn með Landhelgisgæslunni fyrir áratug síðan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

TF-LÍF leitar að bátsmanninum af léttabáti Triton. Hann fannst skömmu síðar látinn í sjónum.