Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 30. maí 2000 kl. 09:32

Árangur í stærðfræði mjög slakur

Niðurstöður samræmdra prófa í stærðfræði í 10. bekkjum á Suðurnesjum eru ekkert til að hrópa húrra fyrir í samanburði við landsmeðaltal en árangur í tungumálum er viðunandi. Eiríkur Hermannsson, skólamálafulltrúi Reykjanesbæjar, segir að þessar niðurstöður valdi mönnum miklum áhyggjum og að farið verði ofan í saumana á málunum á næstu dögum.Samræmd einkunn í stærðfræði á Suðurnesjum var 4,1 og landsmeðaltal var heilum hærri, eða 5,1. Þess má geta að meðaleinkunn í Reykjavík var 5,4. Meðaleinkunn í íslensku var 6,2 en landsmeðaltal 6,6. Samræmd einkunn í dönsku var einnig 6,2 og landsmeðaltal 6,5. Enskan kom ágætlega út en í henni voru Suðunesin með 6,3 og landsmeðaltalið örlítið fyrir ofan, eða 6,6, Af þessum tölum má sjá að einkunnir í ensku, dönsku og íslensku eru nálægt landsmeðaltalinu en hins vegar er árangur í stærðfræði verulega slakur. Þar vantar mikið upp á svo árangur verði viðunandi. „Ég kann ekki skýringar á þessu og þetta veldur mér miklu áhyggjum. Þessar niðurstöður eru ekki í samræmi við árangur sem þessir sömu krakkar voru að skila í 7. bekk í samanburðarprófi þá. Við höfðum gert okkur vonir um að við værum á uppleið í stærðfræði, eins og árangur í 4. og 7. bekkjum hefur sýnt“, segir Eiríkur. Skólar á Suðurnesjum hafa gert sérstakt átak í stærðfræðikennslu á undanförnum misserum en það virðist samkvæmt þessu, ekki hafa borið árangur. „Það er eitthvað bogið við þetta. Umbætur í skólunum skila sér í yngri bekkjum, en ekki þarna. Við erum búin að boða til fundar og ætlum að setjast niður með skólastjórnendum og stærðfræðikennurum nk. mánudag og fara yfir stöðuna. Við látum ekki hugfallast, heldur tökum okkur saman í andlitinu“, segir Eiríkur og bætir við að e.t.v. megi skýra hluta málsins með ákveðnum byrjunarerfiðleikum sem fylgja hverfa- og skólaskipan. „Í fljótu bragði sýnist mér að við séum með færri toppa, en við eigum að vera með en ég er ekki viss að við séum með miklu fleiri í lökustu hópunum en áður. Ég er búinn að hafa samband við Rannsóknarstofnun uppeldis og menntamála og óska eftir frekari upplýsingum frá þeim. Ég held að þessi slaki árangur hafi komið flatt upp á marga en ég er þokkalega sáttur með útkomuna í tungumálunum“, segir Eiríkur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024