Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Annríki og nýtt met slegið í sjúkraflutningum
Sjúkraflutningamenn og sjúkrabíll framan við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í vikunni. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 29. júlí 2016 kl. 09:56

Annríki og nýtt met slegið í sjúkraflutningum

Erlendir sjúklingar staðgreiða flutning í sjúkrabílnum

Síðustu dagar hafa verð annasamir í sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja. Annir eru það miklar að nýtt met hefur verið slegið í sjúkraflutningum en aldrei í sögu sjúkraflutninga á Suðurnesjum hafa verið eins margir flutningar í einum mánuði. Þegar Víkurfréttir fóru í prentun síðdegis í gær voru sjúkraflutningarnir orðnir 229 í mánuðinum. Eldra met var 220 sjúkraflutningar í janúar 2014.

Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, segir í samtali við Víkurfréttir að ekki aðeins séu sjúkraflutningarnir margir, þá séu óvenju mörg útköll á mesta forgangi. Af þessum 229 útköllum séu 81 á forgangi F-1 eða F-2, sem er hratt viðbragð.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Síðustu daga hafa verið fjölmörg útköll á Keflavíkurflugvöll þar sem ferðamannatíminn sé nú í hámarki. Áður en blaðið fór pentun síðdegis í gær voru útköll tengd fluginu orðin fimm þann daginn. Þau tengjast flest veikindum farþega eða flutningi á sjúklingum í sjúkraflug. Þó nokkuð er um að flugvélar þurfi að millilenda á Íslandi á ferð yfir Atlantshafið, þegar veikindi verða um borð. Um 11% allra sjúkraflutninga á Suðurnesjum tengjast Keflavíkurflugvelli og flugstöðinni. Aukningin í þessum flutningum er 37% frá því í fyrra.

Með auknum ferðamannastraumi til landsins þá fjölgar einnig erlendum sjúklingum sem fluttir eru með sjúkrabílum Brunavarna Suðurnesja. Kostnaðurinn við þessa flutninga fellur allur á þá sjúklinga sem eru fluttir. Sjúklingar frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins þurfa að framvísa skilríkjum sem eru mynduð og Sjúkratryggingar Íslands hafa svo milligöngu um greiðslur fyrir flutninginn. Aðrir erlendir sjúklingar sem eru fluttir með sjúkrabílum þurfa að staðgreiða flutninginn. Þannig eru greiðsluposar í sjúkrabílunum þar sem sjúklingar eða aðstandendur þurfa að staðgreiða flutninginn sem kostar um 40.000 krónur fyrir hverja byrjaða klukkustund. Jón Guðlaugsson sagði alla borga með bros á vör. Það kæmi líka flestum á óvart að sjúkraflutningurinn væri ekki dýrari, því sú væri reynslan víða erlendis.

Á þessu ári eru sjúkraflutningar orðnir 1435 talsins og segir Jón að miðað við þá aukningu sem orðið hefur í sjúkraflutningum allt þetta ár megi búast við að þetta ár verði metár í sjúkraflutningum.