Annríki hjá fíkniefnalögreglu í Keflavík
Fíkniefnadeild lögreglunnar í Keflavík hefur haft í nógu að snúast að undanförnu því fjögur fíkniefnamál hafa komið upp með skömmu millibili.Fimm grömm af hassi fundust í sjoppu í Reykjanesbæ í síðustu viku. Málið er nú í rannsókn. Fjórir aðilar voru handteknir í Reykjanesbæ fyrir skömmu og á einum þeirra fundust 2 grömm af hassi. Fjórmenningarnir voru handteknir og færðir á lögreglustöðina í Keflavík til yfirheyrslu. Að henni lokinni voru þeir frjálsir ferða sinna. Tvær konur á þrítugsaldri voru handteknar á Reykjanesbraut. Í bifreið þeirra fundust 3 grömm af marijúana. Konurnar eru þekktir fíkniefnaneytendur og hafa oft áður komið við sögu lögreglunnar. Þær voru yfirheyrðar en eru nú frjálsar ferða sinna.Lögreglan í Reykjavík handtók konu frá Reykjanesbæ í sl. viku, en hún er talin stunda víðtæka fíkniefnasölu. Á henni fundust 60 grömm af hassi, 9 grömm af amfetamíni, 80 steratöflur og eitthvert magn af sterum í fljótandi formi. Hún var yfirheyrð og bíður nú dóms.