Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Annríki að morgni nýársdags
Sunnudagur 2. janúar 2005 kl. 13:36

Annríki að morgni nýársdags

Lögreglan í Keflavík fékk allnokkur útköll í gærmorgun þar sem áramótafögnuður nokkurra bæjarbúa hafði dregist nokkuð.


Um kl. 7 var ölvaður maður handtekinn fyrir að brjóta rúðu í heimahúsi í Keflavík og aka brott. Hann náðist á Reykjanesbraut við Vogastapa og var færður í fangageymslur.

Skömmu fyrir kl. 8 var lögreglan kölluð út að skemmtistaðnum Traffic þar sem hópslagsmál höfðu brotist út. Að sögn lögreglu var nærvera lögreglumanna nóg til að róa mannskapinn og leystist hópurinn fljótlega upp.

Um svipað leyti kom lögregla að manni sem svaf ölvunarsvefni fyrir utan skemmtistað í Keflavík. Var hann vakinn og ekið til síns heima.

Lögregla var kölluð út vegna heimilisófriðar í Njarðvík skömmu fyrir kl. 11 en aðilar sættust fljótt eftir komu lögreglu.

Um svipað leyti var lögregla kölluð út vegna mikils hávaða frá síðbúnum áramótafagnaði í heimahúsi í Keflavík. Lofaði húsráðandi að sjá til þess að nágrannar hans yrðu ekki fyrir frekara ónæði.

Í hádeginu var svo tilkynnt um tvö innbrot, annað í verkfæraskúr við seltjörn en hitt í húsnæði KFUM og K þar sem einhverju af gosdrykkjum hafði verið stolið.

Þá var nokkuð um skemmdir á bifreiðum auk þess sem það uppgötvaðist að einhver hafði sprautað úr duftslökkvitæki í stigagangi fjölbýlishúss í Keflavík og tekið slökkvitækið með sér.

Ekki gerðist neitt markvert frá miðjum degi í gær fram á morgun, enda hafa samkvæmisljón eflaust haldis sér til hlés eitthvað fram eftir kvöldi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024