230 þúsunda króna sekt fyrir hraðakstur
Talsverðar annir hafa verið hjá lögreglu sl. þrjá sólarhringa vegna brota og óhappa í umferðinni. Í fyrrakvöld var ökumaður stöðvaður og reyndist hann vera aðeins sextán ára og því réttindalaus. Rætt var við piltinn og honum gerð grein fyrir alvarleika málsins. Einnig var rætt við forráðamann hans.
Afskipti voru svo höfð af allmörgum ökumönnum sem höfðu gerst brotlegir í umferðinni. Nokkrir voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 159 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Hans bíður 230 þúsunda króna sekt.
Fáeinir voru teknir úr umferð vegna vímuefnaaksturs og höfðu tveir þeirra verið sviptir ökuréttindum áður.