Annasamt hjá slökkviliðinu
Miklar annir voru hjá Brunavörnum Suðurnesja í síðustu viku, fimm brunaútköll og þrettán sjúkraflutningar. Næturvaktin sl. fimmtudagskvöld hafði einnig nóg að gera, en þá voru sjö útköll á slökkvilið og sjúkrabíla. Tilkynnt um vatnsleka í húsi í Keflavík, kl. níu sl. fimmtudagskvöld. Slökkvilið fór á staðinn til að dæla út vatni. Á meðan á því stóð varð umferðaslys á Reykjanesbraut og var allt tiltækt lið kallað út og dælingu hætt í bili, sem var síðan haldið áfram þegar mannskapurinn hafði lokið störfum á Reykjanesbrautinni.Slökkviliðið tók þátt í Ljósanótt á laugardag og ók um bæinn á gljáfægðum bílum, ungum sem öldnum til mikillar ánægju. Á sunnudagskvöld var tilkynnt um að eldur logaði í holræsi við götu í Keflavík. Þar hafði einhver hellt bensíni í ræsið og kveikt í. Vel gekk að slökkva eldinn en Jón Guðlaugsson, varaslökkviliðsstjóri, bendir á að stórhættulegt sé að hella rokgjörnum efnum, eins og bensíni, á slíka staði og kveikja í, vegna mikillar sprengihættu. Því má segja að betur hafi farið en á horfðist.