Annar ökumannanna lífshættulega slasaður
Ökumaðurinn sem fluttur var á sjúkrahús eftir harðan árekstur á Reykjanesbraut við Grindavíkurafleggjara í morgun liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Maðurinn er í öndunarvél og lífshættulega slasaður. Hinn ökumaðurinn var einnig fluttur með sjúkrabíl til skoðunar en er ekki talinn alvarlega slasaður.
Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni í Keflavík virðist sem ökumaður bifreiðar sem var á leið til Keflavíkur eftir Reykjanesbraut hafi misst stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin valt yfir aðra bifreið sem var að koma út af Grindavíkurafleggjara á Reykjanesbraut, áleiðis til Reykjavíkur.