Anna María með hæstu einkunn á stúdentsprófi
Anna María Ævarsdóttir fékk verðlaun fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi við útskriftarathöfn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í síðustu viku. Hún fékk einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í tungumálum.
„Ég átti ekkert von þessu en hef alltaf ákveðið að gera mitt besta,“ segir Anna í viðtali við blaðamann Víkurfrétta. „Þetta hefur alltaf verið svona hjá mér, mér hefur alltaf gengið vel í menntaskóla. Ég stefni alltaf sem hæst og reyni alltaf að gera mitt besta.“
„Líffræðin og náttúrufræðin hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, en svo gekk mér líka rosalega vel í tungumálunum en það hefur fylgt mér í gegnum barnaskólann,“ bætir Anna við.
Anna María útskrifaðist af náttúrufræði braut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, fimmtudaginn 20.desember. Hún segir að næsta haust fari hún í Háskóla Íslands, en þar fer hún á læknadeild í lífeindafræði og geislafræði, en eftir áramót ætlar hún að fara að kenna 1.bekk í Holtaskóla, þannig að það er bara beint úr skóla og aftur í skóla fyrir hana.