Anna Lóa verður forseti bæjarstjórnar
- nýr meirihluti myndaður í Reykjanesbæ.
Ný meirihluti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar var kynntur í morgun að Nesvöllum. Anna Lóa Ólafsdóttir, sem skipar annað sæti hjá Beinni leið, verður forseti bæjarstjórnar og Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar og óháðra, verður formaður bæjarráðs.
Auk Önnu Lóu mun skipa nýja meirihluta Gunnar Þórarinsson, oddviti frjáls afls, Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar, Elín Rós Bjarnadóttir, öðru sæti hjá Frjálsu afli og Guðný Birna Guðmundsdóttir, öðru sæti hjá Samfylkingu og óháðum.
Meirihlutinn hefur komist að samkomulagi um helstu nefndarskipan og mun Frjálst afl fá stjórnarmennsku í fjórum nefndum og hin framboðin taka að sér stjórnarmennsku í tveimur. Guðbrandur Einarsson tók fram að það væri gleðiefni að fá konu í embætti forseta bæjarstjórnar og það muni breyta ásýnd bæjarstjórnarinnar og bæjarins verulega.
Nýr bæjarstjóri kemur að sögn Gunnars vonandi til starfa í ágúst og fylgt verður þeirri fjárhagsáætlun sem gerð var síðastliðið haust. Vafalaust verði breytingar í stjórnsýslunni sem munu koma í ljós þá. Auglýsing um umsóknir um starf bæjarstjóra verður birt þegar nýr meirihluti hefur tekið við og upp úr því verður kynnt nákvæmari stefnuskrá. Fyrsti bæjarstjórnarfundur er áætlaður 24. júní, þar sem bæjarstjórnaskiptin fara fram formlega. Umboð fyrri bæjarstjórnar fellur úr gildi 15. júní.
Nokkrir bæjarbúar voru viðstaddir og bárust ýmsar spurningar úr sal. Ein þeirra var á þá leið hvernig bæjarstjóra meirihlutinn sæi fyrir sér taka við. Gunnar Þórarinsson, oddviti Frjáls afls, svaraði því til að viðkomandi muni annaðhvort að vera karl eða kona. Friðjón bætti við: „Ekkert okkar ætlar að verða bæjarstjóri.“ Einn viðstaddra, íbúi á Nesvöllum, bauðst til þess að taka að sér að vera bæjarstjóri og gera það kauplaust.
Gunnar Þórarinsson kynnti málefnasamninginn sem undirritaður var. Hann felst í úttekt á fjárhagsstöðu og stjórnsýsli bæjarins, árshlutauppgjöri sem Deloitte ehf verður falið að gera, stöðu bæjarstjóra, átak í atvinnumálum og áherslur á fjölskyldu og heimili.
Anna Lóa Ólafsdóttir sagði m.a. í viðtali við Víkurfréttir að meirihlutinn hafi verið sammála með marga meginþætti í meirhlutaviðræðum. „Ég geri mér grein fyrir því að það eru erfið verkefni sem bíða okkar, en ég hef áður tekist á við erfið verkefni faglega og í lífinu. Þetta eru stór tímamót í mínu lífi.“ Þá hafi einnig verið mikil samstaða var með skiptingu embætta og Guðbrandur Einarsson hafi lagt til snemma í ferlinu að hún yrði forseti bæjarstjórnar. Hún hafi ekki skorast undan því. Aðspurð sagðist Anna Lóa vilja fá í bæjarstjórastól einhvern sem sé vel að sér í rektri og stjórnun. „En ekki síður einhvern sem er vel að sér þegar kemur að mannlega þættinum. Mér finnst oft andlegi og mannlegi þátturinn settur til hliðar í stjórnmálum. Ég mun núna koma fram fyrir hönd bæjarins og tek það hlutverk mjög alvarlega. Ég ætla að samt vera ég sjálf,“ segir Anna Lóa.
Myndband með viðtali við hana verður birt á vef Víkurfrétta síðar í dag.
VF-myndir Eyþór Sæm. Texti Olga Björt.