Andlát: Páll Hreinn Pálsson
Aðalstofnandi Vísis hf., Páll Hreinn Pálsson útgerðarmaður í Grindavík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík í gær, 82 ára að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík árið 1932, en fluttist nokkurra vikna gamall til Þingeyrar, þar sem hann ólst upp með foreldrum sínum og þremur systkinum.
Foreldrar hans voru þau Jóhanna Daðey Gísladóttir og Páll Jónsson, sem átti bátana Fjölni og Hilmi og fórst með Hilmi í Faxaflóa árið 1943. Jóhanna Daðey gerði Fjölni áfram út til síldveiða og fiskflutninga í stríðinu allt þar til hann sökk, er hann lenti í árekstri við enskt póstskip í lok stríðsins, í mars 1945.
Páll H. Pálsson var ellefu ára gamall þegar hann fór fyrst á sjóinn sem léttadrengur á Fjölni. Þar á eftir stundaði hann sjómennsku á ýmsum bátum og togurum þar til hann fór í Stýrimannaskólann. Þaðan útskrifaðist hann árið 1953. Það ár keypti hann ásamt fleirum 100 tonna bát, Ágúst Þórarinsson frá Stykkishólmi. Fékk hann nafnið Fjölnir ÍS 177 og var gerður út á línuveiðar frá Þingeyri.
Eftir Stýrimannaskólann gerðist Páll stýrimaður á m/b Voninni frá Keflavík og síðar á m/b Hilmi. Því næst varð hann skipstjóri á m/b Nonna og þar á eftir á m/b Bárunni. Árið 1963 keypti Páll m/b Farsæl og var með hann á línu- og humarveiðum. Árið 1964 keypti hann, ásamt Kristmundi Finnbogasyni og Ásgeiri Lúðvíkssyni, vélbátinn Vísi KE 70 og fiskverkunarhúsið Sævík í Grindavík og flutti þangað með fjölskyldu sína í nóvember 1965.
Félagið Vísir sf. var formlega stofnað 1. desember 1965. Vísir er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og gerir út fimm línuskip auk þess sem fyrirtækið rekur öfluga fiskvinnslu í Grindavík. Páll var forstjóri félagsins til ársins 2000 og stjórnarformaður til dauðadags.
Páll var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001, fyrir störf sín að sjávarútvegi og fiskvinnslu.
Á skólaárum Páls fyrir sunnan kynnist hann Margréti Sighvatsdóttur. Þau giftu sig á sjómannadaginn árið 1955 og hófu búskap í Keflavík, en bjuggu síðan lengst af í Grindavík. Margrét lést 3. febrúar 2012. Börn Páls og Margrétar eru Margrét, Páll Jóhann, Pétur Hafsteinn, Kristín Elísabet, Svanhvít Daðey og Sólný Ingibjörg. Barnabörnin eru 24 og langafabörnin eru 27. Sambýliskona Páls síðustu æviárin var Soffía Stefánsdóttir.