Andlát: Gunnar Sveinsson, fyrrum kaupfélagsstjóri
Gunnar Sveinsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri í Keflavík, lést á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum, Reykjanesbæ, laugardaginn 4. júlí sl.
Gunnar fæddist 10. mars 1923 á Góustöðum í Eyrarhreppi (Ísafjarðarkaupstað). Foreldrar hans voru Guðríður Júdit Magnúsdóttir, frá Sæbóli í Aðalvík, f. 12. ágúst 1891, d. 15. mars 1975 og Sveinn Guðmundsson, frá Hafrafelli í Skutulsfirði, f. 27. apríl 1887, d. 4. febrúar 1960.
Bræður Gunnars eru Guðmundur, f. 9. 4. 1913 d. 9. 4. 1987, Magnús f. 19.12. 1917 d. 29.1. 1938, Vilhjálmur Jón f. 17. 12. 1919 d. 23. 8. 2000, Sigurður f. 11.11. 1921 d. 14. 7. 2011, Þorsteinn f. 2. 5. 1924, Ólafur f. 3. 9. 1927.
Eiginkona Gunnars var Fjóla Sigurbjörnsdóttir, f. 6. febrúar 1930, d. 14. ágúst 2011. Foreldrar hennar voru Sigurbjörn Jósepsson og Guðrún Jónsdóttir. Gunnar og Fjóla eignuðust fimm börn. Þau eru 1) Magnús, f. 4. jan. 1953, d. 12. des. 1979. Eiginkona hans var Ólöf Helga Þór, f. 1956 og áttu þau soninn Gunnar Svein, f. 1978. Kona Gunnars er Inga Hrönn Kristjánsdóttir og eiga þau þrjá syni. 2) Ragnheiður Guðrún, framhaldsskólakennari, f. 9. maí 1954. Sambýlismaður hennar er Ægir Magnússon, f. 1957. Börn Ragnheiðar og Jóns Baldvins Hannessonar, f. 1953, eru Halldóra Guðrún, f. 1978, gift Birgi Má Bragasyni og eiga þau þrjú börn, Magnús Sveinn f. 1982, unnusta hans er Ieva Aleknaite, Fjóla Þórdís, f. 1986. Sambýlismaður hennar er Davíð Örn Óskarsson og eiga þau tvö börn. Stjúpbörn Ragnheiðar, börn Ægis eru Hörður, f. 1982, Magnús, f. 1985 og Guðbjörg, f. 1993. 3) Sveinn Sigurður, f. 7. ágúst 1955, d. 20. sept. 1975. 4) Sigurbjörn Jón, framkvæmdastjóri, f. 29. ágúst 1959. Eiginkona hans er Jenný Sandra Gunnarsdóttir, f. 1963. Börn þeirra eru Berglind María, f. 1998 og Silja Rún, f. 2002. Stjúpbörn Sigurbjörns, börn Jennýjar, eru Hildur Sigurðardóttir, f. 1987, hún á einn son, og Skúli Sigurðsson, f. 1990. 5) Gísli Benedikt, grunnskólakennari, f. 20. maí 1962.
Gunnar lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1942 og nam við Vår Gård og Brödrena Påhlmans Handelsinstitut í Stokkhólmi 1945 - 1946. Hann stundaði verslunarstörf á Patreksfirði og Akranesi 1942 til 1946 þegar hann var ráðinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags Berufjarðar á Djúpavogi sem hann gegndi til 1948. Gunnar var ráðinn kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Suðurnesja árið 1949 og starfaði þar samfleytt þar til hann lét af störfum fyrir aldurssakir árið 1988. Hann var jafnframt stjórnarformaður Hraðfrystihúss Keflavíkur í 30 ár. Gunnar sat í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga í 8 ár og sat í ýmsum stjórnum og nefndum á vegum kaupfélagsins og Sambandsins s.s. Lindar hf., Nýju teiknistofunnar hf. og Samskipa hf.
Gunnar tók mikinn þátt í margvíslegum félagsstörfum. Hann sat m.a. í stjórnum Ungmennafélags Keflavíkur, þar sem hann var formaður um tíma og Ungmennafélags Íslands. Þá átti hann sæti í Íþróttanefnd ríkisins. Gunnar sat í Skólanefnd Keflavíkur, í undirbúningsnefnd að stofnun Fjölbrautarskóla Suðurnesja og var síðan formaður skólanefndar FS í 11 ár. Hann átti sæti í sögunefnd Keflavíkur, sóknarnefnd Keflavíkurkirkju, auk setu á kirkjuþingi frá 1998 – 2001. Gunnar var félagi í Rótaryklúbbi Keflavíkur frá 1953, í Málfundafélaginu Faxa í yfir 50 ár og í stjórn Vestfirðingafélagsins á Suðurnesjum í yfir 40 ár auk ýmissa annara félagstarfa. Gunnar starfaði mikið fyrir Framsóknarflokkinn í 60 ár og var varaþingmaður á árunum 1974 – 1978 og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi.
Útför Gunnars fer fram frá Keflavíkurkirkju mánudaginn 13. júlí kl. 15.00