Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Andar köldu í meirihlutasamstarfinu í Suðurnesjabæ
Frá fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, sem haldinn var í Ráðhúsinu í Garði. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 5. júní 2024 kl. 21:04

Andar köldu í meirihlutasamstarfinu í Suðurnesjabæ

Meirihlutinn klofinn í kosningu um gervigrasvöll og nýtt bæjarráð

Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar og oddviti D-listans, vildi ekki ræða meirihlutasamstarfið í Suðurnesjabæ þegar eftir því var leitað eftir bæjarstjórnarfundinn síðdegis. Klofningur er í meirihlutasamstarfinu í Suðurnesjabæ. Hann kom berlega í ljós á fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar síðdegis. Þá var tekin til afgreiðslu tillaga um að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði.

Um er að ræða tillögu þeirra Antons K. Guðmundssonar fulltrúa B-lista og Magnúsar Sigfúsar Magnússonar fulltrúa D-lista sem samþykkt var á 143. fundi bæjarráðs 29. maí 2024. Jónína Magnúsdóttir fulltrúi O-lista í bæjarráði sat hjá við afgreiðslu ráðsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tillagan er svohljóðandi:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.

Auk þess leggur bæjarráð til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja sem þegar hefur verið skipaður af bæjarráði geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu íþróttamannvirkja til næstu ára.

Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Bæjarráð þakkar verkfræðistofunni Verkís ásamt starfsmönnum Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í málinu.“

Tillaga var samþykkt í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar með fimm atkvæðum þeirra Antons Kristins Guðmundssonar og Sunnevu Óskar Þóroddsdóttir B-lista, Sigursveins Bjarna Jónssonar og Elínar Frímannsdóttir S-lista og Magnúsar Sigfúsar Magnússonar D-lista. Tveir fulltrúar D-lista, þau Einar Jón Pálsson og Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir ásamt fulltrúum O-lista, þeim Jónínu Magnúsdóttur og Laufeyju Erlendsdóttur, greiddu atkvæði á móti tillögunni.

Tillaga bæjarráðs samþykkt á fundi bæjarstjórnar með fimm atkvæðum gegn fjórum. VF/Hilmar Bragi

 

Áður en tillaga bæjarráðs var tekin til atkvæðagreiðslu höfðu bæjarfulltrúar O-lista (Bæjarlistans) lagt fram eftirfarandi bókun og tillögu:

„Bæjarlistinn styður uppbyggingu gervigrasvallar í Suðurnesjabæ.

Bæjarlistinn styður hins vegar ekki tillögu, vinnubrögð og forsendur B- og D- lista í þessu máli.

Það var að frumkvæði Bæjarlistans sem lagður var fram vinnsluferill í málinu í júní 2022. Í september var einungis einum lið af fimm lokið og lýstu fulltrúar Bæjarlistans yfir áhyggjum af töfum í málinu með bókun í bæjarstjórn þann 7.9.2022. Síðan þá hefur minnihlutinn þrýst á að tillögur um staðsetningu verði lagðar fram. Tvær tillögur hafa komið frá minnihlutanum. Bæjarlistinn lagði fram vel rökstudda tillögu í mars sl. um að völlurinn yrði staðsettur á skipulögðu íþróttasvæði á milli Garðs og Sandgerðis, og teljum við að það sé besta lausnin þegar horft er til framtíðaruppbyggingar. Fulltrúar meirihlutans hafa forðast að taka ákvörðun í málinu í tvö ár. Þau hafa varpað ábyrgðinni yfir á íþróttafélögin og sakað þau um að geta ekki komið sér saman um staðsetningu vallarins.

Verkfræðistofa hefur verið fengin til að vinna valkostagreiningu um staðsetningu vallarins (maí 2022) og samanburðargreiningu á Reynis- og Víðisvelli (jan. 2024). Í framhaldinu komu engar tillögur um staðsetningu frá meirihlutanum.

Málinu var svo vísað í samráðsteymi um uppbyggingu- og viðhaldsáætlun íþróttamannvirkja í mars 2024 og var teyminu falið að vinna tillögu um staðsetningu gervigrasvallar og skila til bæjarráðs. Jafnframt var lögð áhersla á að knattspyrnufélögin tækju þátt í vinnslu tillögunnar. Teymið fundaði með forsvarsmönnum félaganna og voru fundarmenn sammála um að aðstaða til æfinga og keppni yfir sumartímann er betri í Sandgerði en í Garði og aðstaða til knattspyrnu almennt betri í Sandgerði. Í framhaldi var lögð fram vel rökstudd tillaga um að leggja gervigrasvöll á gamla malarvöllinn í Garði. Formenn félaganna ræddu tillöguna í sínum stjórnum. Full sátt var með tillöguna í stjórn Víðis og var hún jafnframt samþykkt í stjórn Reynis með ákveðnum skilyrðum um frekari uppbyggingu við Reynisvöll. Niðurstaðan var lögð fyrir bæjarráð þann 29.5.2024.

Þá leggja hins vegar meirihluti bæjarráðs, fulltrúar B- og D lista fram allt aðra tillögu eftir stutt fundarhlé.

Fulltrúar Bæjarlistans telja ekki hægt að taka þátt í að bera ábyrgð á svo ómarkvissu og ófaglegu ferli og telja sig því knúna til að vera á móti tillögu bæjarráðs. Þó svo að við höfum lagt fram tillögu um uppbyggingu í „miðjunni“ og teljum þá staðsetningu besta fyrir framtíðaruppbyggingu er eðlilegt að fallast á tillögu stýrihópsins þar sem sátt ríkir um hana innan íþróttafélaganna.

Bæjarlistinn leggur til að unnið verði eftir tillögum í minnisblaði stýrihópsins.“

Afgreiðsla málsins var að tillaga O-lista um að vinna eftir tillögum í minnisblaði stýrihóps var felld með fimm atkvæðum þeirra Antons Kristins Guðmundssonar og Sunnevu Óskar Þóroddsdóttir B-lista, Sigursveins Bjarna Jónssonar og Elínar Frímannsdóttir S-lista og Magnúsar Sigfúsar Magnússonar D-lista. Tveir fulltrúar D-lista, þau Einar Jón Pálsson og Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir ásamt fulltrúum O-lista, þeim Jónínu Magnúsdóttur og Laufeyju Erlendsdóttur, greiddu atkvæði með tillögunni.

Magnús Sigfús Magnússon í pontu. Einar Jón Pálsson hlustar af athygli. VF/Hilmar Bragi

 

Þau Einar Jón Pálsson og Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir lögðu jafnframt fram bókun með afstöðu sinni til tillögu fulltrúa B- og D-lista í bæjarráði:

„Tillaga fulltrúa B- og D-lista í bæjarráði er ekki til þess fallin að skapa sátt í samfélaginu eins og fram hefur komið. Bæjarráð samþykkti í lok mars að skipa samráðsteymi til að vinna tillögu að staðsetningu gervigrasvallar og skila til bæjarráðs. Lögð var þar áhersla á að knattspyrnufélögin tækju þátt og öxluðu ábyrgð á vinnu að tillögu um staðsetningu. Þessi samþykkt var svo staðfest í bæjarstjórn í apríl.

Niðurstöður og tillögur samráðshópsins eru settar fram eftir mjög góðar og málefnalegar umræður með forsvarsmönnum félaganna, eins og fram kemur í minnisblaðinu.

Ljóst má vera af bókunum stjórna félaganna að hvorugt félagið leggst gegn tillögum samráðsteymisins og því mesta mögulega sáttin um framkvæmdina að fara eftir þeim tillögum.

Það er því óskiljanlegt að bæjarfulltrúar vilji ekki fara eftir niðurstöðu samráðshópsins sem er til þess fallin að skapa mestu mögulegu sáttina um framkvæmdina.

Við undirritaðir bæjarfulltrúar D-lista getum því ekki samþykkt, né setið hjá og greiðum afstöðu gegn tillögunni.“

Þá bókuðu Einar Jón Pálsson og Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir, bæjarfulltrúar D-listans, jafnframt:

„Nú þegar afgreiðsla þessa máls liggur fyrir óskum við eftir að hönnun, sem og endanlegt kostnaðarmat verði lagt fram, þar sem nánari greining verði gerð á kostnaði við að rétta af völlinn enda er mismunur um 2 metrar milli horna vallarins. Á þessum stöðum hefur verið sýnt fram á að aðeins er um 1 metri niður á klöpp og því verulegu kostnaður sem af því hlýst að rétta hann af. Í skýrslum Verkís hefur ekki hefur verið reiknað út hver þessi kostnaður er.

Jafnframt verði hafnar samningaviðræður Knattspyrnufélagið Reynir um afsal vallarins og skoðað hvaða áhrif það muni hafa á störf og fjárhag félagsins. Rétt er að benda á að nýr völlur verður í umsjón sveitarfélagsins og munu bæði félög og allir flokkar félaganna eiga jafnan rétt á notkun hans og í raun eiga börnin að vera í forgangi. Ljóst er að hætta er á að tekjur Reynis muni minnka og verður að vera ljóst hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér.

Ofangreint verði lagt fram sem fyrst en að minnsta kosti áður en ákvörðun um útboð fer fram.“

Anton Kristinn Guðmundsson, formaður bæjarráðs, greiddi atkvæði á móti breytingum á bæjarráði.

 

Síðar á bæjarstjórnarfundinum var kosning í bæjarráð Suðurnesjabæjar til eins árs til samræmis við samþykktir um stjórn Suðurnesjabæjar. Bæjarráð var áður skipað þeim Antoni K. Guðmundssyni formanni (B), Magnúsi Sigfúsi Magnússyni (D), Jónínu Magnúsdóttir (O) og Sigursveini Bjarna Jónssyni (S) sem áheyrnarfulltrúa.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Aðalfulltrúar: Anton Kristinn Guðmundsson formaður, Einar Jón Pálsson varaformaður og Sigursveinn Bjarni Jónsson. Áheyrnarfulltrúi Laufey Erlendsdóttir.

Varafulltrúar: Úrsúla María Guðjónsdóttir, Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir og Elín Frímannsdóttir. Áheyrnarfulltrúi til vara Jónína Magnúsdóttir.

Tillaga að nýju bæjarráði til eins árs var samþykkt með sex atkvæðum Einars Jóns Pálssonar (D), Oddnýjar Kristrúnar Ásgeirsdóttir (D), Jónínu Magnúsdóttur (O), Laufeyjar Erlendsdóttir (O), Sigursveins Bjarna Jónssonar (S) og Elínar Frímannsdóttur (S).

Bæjarfulltrúarnir Anton Kristinn Guðmundsson (B), Sunneva Ósk Þóroddsdóttir (B) og Magnús Sigfús Magnússon (D) greiddu atkvæði á móti tillögunni.


Það var þétt setinn bekkurinn á bæjarstjórnarfundinum í Suðurnesjabæ.

Að neðan má sjá upptöku frá fundinum og heyra umræður. Fram kom á fundinum að útsendingin hafi rofnað um stund.