Án ökuréttinda á flótta undan lögreglunni
Réttindalaus ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglumanna á Suðurnesjum um helgina þegar þeir hugðust athuga með ástand hans. Þegar honum voru gefin merki, með forgangsljósum lögreglubifreiðarinnar, um að stöðva aksturinn gaf hann í og tók fram úr tveimur bifreiðum þrátt fyrir að á þeim vegarkafla sé bann við framúrakstri. Honum var veitt eftirför og eftir alllangan akstur, þar sem hann ók langt yfir hámarkshraða, beygði hann loks inn á bifreiðastæði og lauk þar með akstri hans. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð, grunaður um fíkniefnaakstur, auk fyrrgreindra brota.