Án ökuprófs í hraðakstri

 
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði fyrir og um helgina þrjá ökumenn sem allir voru réttindalausir undir stýri. Einn þeirra, karlmaður á þrítugsaldri var stöðvaður á Reykjanesbraut, þar sem hann ók á 139 kílómetra hraða, en þar er hámarkshraði 90 kílómetrar á klukkustund. Maðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi.  Annar réttindalaus ökumaður stöðvaði bíl sinn, þegar hann varð lögreglu var og tók á rás í burtu. Síðan kvaðst hann hafa misst stjórn á sér og bað lögreglu afsökunar á atferli sínu. Þriðji ökumaðurinn sem lögregla hafði afskipti af hafði áður verið sviptur ökuréttindum.
 





 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				