Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 21. janúar 2002 kl. 11:18

Alzheimer: Er sambýli lausnin ?

Þó svo að Alzheimer –sjúkdómurinn hafi verið uppgötvaður í kringum 1907 hafa læknavísindin ekki fundið við honum lækningu. Ótal rannsóknir hafa verið gerðar til þess að varpa ljósi á sjúkdóminn, nú síðast í janúar 2002 segjast vísindamenn við háskólann í Kaliforníu hafa þróað prófanir sem ætlað sé að greina Alzheimer á grunnstigi. Þá fundu starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar erfðavísi sem virðist gefa sterkt til kynna að Alzheimer sjúkdómurinn erfist . Félagsþjónusta Reykjanesbæjar hefur eftir mætti reynt að koma á móts við þarfir einstaklinga með heilabilun með heimaþjónustu og dagvistun þar sem það á við.Sveitarfélögin á Íslandi hafa þó ekki markað skýra stefnu hvernig þau nálgast málið og er það líklega vegna þess að vandinn er skilgreindur sem heilbrigðismál og á þá að tilheyra ríkinu til úrlausnar.

Umönnun heilabilaðra er bæði félagslegt og heilbrigðislegt vandamál í okkar samtíma og virðist fjöldi tilvika hafa aukist á seinni árum. Talið er að um 1500 íslendingar séu með þennan hrörnunarsjúkdóm. Í Reykjanesbæ lætur nærri að 15 – 20 einstaklingar með Alzheimer njóti þjónustu heimilishjálparinnar, séu í dagvistun eða njóta þjónustu heimahjúkrunar frá heilsugæslunni. Þá eru ótaldir þeir einstaklingar sem hafa fengið inni á Garðvangi og í Víðihlíð.

Sjúkdómurinn veldur andlegri hnignun þegar taugafrumur í mörgum hlutum heilans eyðileggjast hægt og sígandi. Sjúkdómurinn leiðir til minnistaps og skerðingar á andlegum, félagslegum og líkamlegum þáttum og er talið að hrörnunin komi fram á um 5 – 10 árum. Einstaklingurinn kann að muna hluti sem gerðust fyrir mörgum árum en gleyma strax því sem er nýskeð. Þegar lengst er gengið getur einstaklingurinn nánast orðið ósjálfbjarga og hefur misst allt raunveruleikaskyn og líkaminn þá farinn að gefa sig. Í upphafi þarf einstaklingurinn félagsþjónustu sem síðan endar í heilbrigðisþjónustu. Af þeim sökum er samstarf sveitarfélaga og ríkis mikilvægt svo tryggja megi sem besta þjónustu fyrir þessa einstaklinga. Tímabilið meðan sjúkdómurinn er að þróast getur verið aðstandendum ákaflega erfiður. Þeim er ráðlagt að forðast fjölmenni, mikinn hávað og staði þar sem einstaklingurinn er ókunnugur, þó er verulegur munur á einstaklingum sumir geta verið með veruleg geðræn einkenni en aðrir ekki.

Foldabær í Grafarvogi er sambýli fyrir konur. Rauði krossinn keypti á sínum tíma einbýlishús og innréttaði sem Alzheimer heimili. Reykjavíkurborg telur það skyldu sína að taka þátt í rekstrinum og greiðir sem nemur einu stöðugildi á skjólstæðing. Sjúklingarnir sem eru ekki nógu veikir til þess að leggjast inná heilbrigðisstofnun en geta samt ekki verið heima hjá sér án eftirlits greiða um 70 þúsund króna leigu á mánuði. Þeir fá í staðinn sólarhringsþjónustu og alla nauðsynlega umönnun en þurfa þó að greiða að auki lyfjakostnað sjálfir. Heimilið greiðir húsaleigu til Rauðakrossins og öll önnur aðföng og reynt er að hafa sem eðlilegastan heimilisbrag í Foldabæ. Forstöðumaður er Margrét Lilja Einarsdóttir sem er fædd og uppalin Keflvíkingur.

Félagsþjónusta Kópavogs hefur síðustu 3 ár verið að undirbúa með heilbrigðisráðuneytinu að hefja byggingu á 450 fermetra sambýli fyrir Alzheimer sjúklinga og reyndar að hafa tvo MS. Sjúklinga líka á deildinni. Framkvæmdaleyfi hefur ekki enn fengist. Við Sunnuhlið hefur verið deild fyrir Alzheimersjúklinga sem eru illa sjúkir og þá líka líkamlega.


Þó svo að Alzheimer sé skilgreindur sjúkdómur er ljóst að einstaklingarnir geta verið líkamlega í góðu ásigkomulagi í mörg ár frá því sjúkdómurinn greinist þar til þeir þurfa hjúkrunarvist. það er því spurning hvort við í Reykjanesbæ þurfum ekki að fara að undirbúa okkur frekar til að mæta þörfum þessara einstaklinga. Ljóst er að áfram þarf að vera mjög náið samstarf milli félagsþjónustunnar okkar í Reykjanesbæ, sjúkrahússins okkar og D.S.
Heimilishjálpin og dagvistin munu áfram spila mikilvægt hlutverk en gagnlegt væri fyrir okkur að skoða hvort sambýli í einhverju formi, t.d. eins og Foldabær, gæti verið leið til að bæta þjónustu við Alzheimer sjúklinga í Reykjanesbæ.

Skúli Þ Skúlason

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024