Álverið rís: Skrifað undir línulagnir í dag
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur úrskurðað í málum er tengjast fyrirhugaðri byggingu álvers í Helguvík. Úrskurður ráðherra er álverinu í hag og því stendur ekkert í vegi fyrir því að framkvæmdir fari á fullt.
Norðurál, Landsnet, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Garður og Suðurlindir hafa boðað til samsætis í dag kl. 17 í bíósal DUUShúsa þar sem skrifað verður undir samning milli Suðurlinda og Landsnet annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar um línulagnir fyrir álver Norðuráls í Helguvík.
Bæjarfulltrúar í Garði og Reykjanesbæ fagna úrskurði Þórunnar og ekki síður því að samið hafi verið um línulagnir vegna fyrirhugaðs álvers. Almenningi er boðið að vera viðstaddur undirritun samninga í bíósalnum í DUUS kl. 17.