Álverið í Helguvík verði það síðasta sem rís hér á landi
Skúli Helgason framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar segist telja að ríkisstjórnin eigi að lýsa því yfir að álverið í Helguvík verði það síðasta sem rís á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Nú verði mótuð ný atvinnustefna með áherslu á nýsköpun, fjölbreytni í atvinnulífinu og jafnvægi á milli atvinnugrein. Þetta kemur fram í grein sem Skúli skrifar á vef Samfylkingarinnar. Frá þessu er greint á www.visir.is
„Í eina tíð voru Íslendingar fiskveiðiþjóð umfram allt en með minnkandi afla á síðasta áratug færðu stjórnvöld allt traust sitt yfir á annan herra, álframleiðslu til útflutnings. Sú atvinnustefna klauf þjóðina í andstæðar fylkingar, rétt eins og hersetan frá 1949 og enn eimir eftir af þeirri hugsun í stjórnmálunum að böl eins og dunið hafa á þjóðinni síðustu mánuði megi bæta með nýju álveri, helst fleiri en einu, hratt og vel," segir í grein Skúla.
Hann segir ennfremur að þetta sé úrelt hugsun og skýrasti lærdómur haustsins sé að í stórtækum úrræðum eins og álverum liggi vandinn en ekki lausn, því ef allt traust sé sett á risalausnir af því tagi, verði fátt um varnir þegar mótvindar taki að blása í viðkomandi geira.
„Einhæft atvinnulíf er ávísun á óstöðugleika, dýpri kreppur, verri lífskjör," segir í grein Skúla.