Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Álver í Helguvík: Umhverfismat nánast tilbúið
Þriðjudagur 28. nóvember 2006 kl. 11:37

Álver í Helguvík: Umhverfismat nánast tilbúið

Vinna við umhverfismat vegna álvers Norðuráls í Helguvík er á lokastigi, að sögn Ragnars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls. Því er ekki langt að bíða þess að frumatsskýsla verði lögð fram til opinberrar kynningar þar sem almenningi gefst kostur á að koma fram með athugasemdir. Eftir það fer málið til Skipulagsstofnunar til úrskurðar en þetta ferli mun taka einhverja mánuði, að sögn Ragnars.

Hvað varðar staðsetningu álversins er verið að skoða þrjá möguleika í stöðunni: þ.e. að það verði alfarið innan landamerkja Reykjanesbæjar, að stórum hluta innan Garðs eða að það verði á mörkum sveitarfélaganna tveggja. Í öllum tilvikum er um að ræða sömu stærð af álveri þannig að í raun má segja að eingöngu sér verið að snúa teikningunum. Ragnar segir að Norðurál leggi ríka áherslu á góða samvinnu við sveitarfélögin hvað þetta varðar.

Um 60 manns voru mættir á íbúafund í Garði í gærkvöld þar sem staðsetning álvers í Helguvík var til umræðu. Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, flutti framsögu á fundinum. Haft er eftir honum að verði álverið að hálfu eða öllu leyti í landi Garðs verði auðveldara að stækka það.

Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, segir að vissulega séu skiptar skoðanir á meðal íbúa sveitarfélagins um verkefnið en hins vegar megi heyra að meirihluti þeirra sé jákvæður gagnvart því. Bæjarstjórn sé einnig jákvæð fyrir verkefninu en muni vinna það í samvinnu við íbúa. Hvað staðsetingu álversins varðar segir Oddný að þar munu reyna á samstöðu sveitarfélaganna. Mikil umræða var á fundinum í gær og segir Oddný hana hafa verið afar málefnalega og góða. -elg


Myndir: Frá íbúafundinum í Garði í gær. VF-myndir: Þorgils

.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024